Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Málsvörn gagnsleysisins

Málsvörn gagnsleysisins

Ungt fólk sem er nýkomið úr myrkviðum menntaskólans stendur frammi fyrir afdrifaríku vali þegar það á að velja sér fag til að læra í háskóla. Fyrir marga þýðir það að taka námslán til þriggja, jafnvel fimm ára, til þess að geta sótt sér menntun á æðra stigi og aukið við atvinnutækifæri sín, svo það liggur á að vanda valið.

Í þessu ljósi tekur menntun stundum á sig form fjárfestingar: þú menntar þig til þess að græða meiri pening þegar þú kemur út á vinnumarkaðinn, og þú ert tilbúinn að taka á þig auknar skuldir til þess að vera fær um að græða þessa peninga, enn fremur trúirðu því að fagið sem þú ert að velja að læra muni skila þér nægilega háum tekjum til þess að þú getir auðveldlega staðið undir þessu láni sem þú ert að fara að taka, sem mun verulega auka við greiðslubyrði þína allt sem eftir er af lífi þínu.

Þegar hugsað er um nám sem fjárfestingu, sem leið til tekjuöflunar, gerirðu um leið upp á milli faga. Þú brennimerkir sum fög, sem ólíkleg til að skila þér tekjum sem réttlæta að þú lærir þau í fleiri ár, sem einfaldlega gagnslaus. Kynjafræði, heimspeki, bókmenntafræði, kvikmyndafræði, félagsfræði, málvísindi, guðfræði, saga.. og svo framvegis. Það veit hver viti borinn maður að það er með öllu gagnslaust, tímasóun, að fara í nám í þessum fögum!

Hvernig ætlarðu að nýta þau á vinnumarkaðnum? Hvers vegna ferðu ekki í hagfræði, eða fjármál og fjárfestingar, bókhald, viðskiptafræði? Verkfræði eða náttúruvísindi? Sálfræði og læknanám eru einnig góð fög, nytsamleg. Það var góð ákvörðun hjá þér Gústi minn að fara í verkfræðina. Það hefði verið algjör tímasóun að fara í eitthvað eins gagnslaust og heimspekina. En hvað ég er nú ánægð með þig Erla að hafa farið í stjórnmálafræði en ekki kynjafræði. Hið síðarnefnda verðskuldar nú varla einu sinni að vera kallað fag!

Þetta er sorgleg staða, finnst mér, og ég held að ég lýsi henni fremur vel og fremur nákvæmlega. Staðreyndin er sú að þessi hugsunarháttur er hér um bil óumflýjanlegur innan regluverks síðkapítalismans, eða raunar innan regluverks kapítalismans yfir höfuð — regluverks sem krefur okkur um að selja tíma okkar og vinnuafl til fjármagnseigenda, til þess eins að geta átt mannsæmandi líf.. og stundum dugir það ekki einu sinni að selja sig til lægstbjóðanda.

Heyr! Ég boða bætur. Nýjan hugsunarhátt. Ný viðhorf. Nýja meðvitund! Tíðaranda fyrir ókomna framtíð, innblásinn af fortíð og nauðsynlegan í nútíð. Köllum það stóra stökkið mitt fram á við, eða hundraðblómahreyfinguna, eða menningarbyltinguna mína: berjumst við fjármagnið með því að stunda „gagnslaust“ nám! Nælum okkur í fáránlegar, ópraktískar gráður sem munu ekki nýtast neinum nema okkar eigin heila. Njótum þess að skapa hluti sem eru verðlaust skran fyrir skynlausum markaðnum en glóandi gull fyrir þenkjandi fólk. Eyðum tíma í að gagnrýna, nöldra og vera ósátt við stöðu mála, og verum sérstaklega hávær þegar íhaldsfólk sakar okkur um að vera vanþakklátir neikvæðnisseggir sem kunna ekki gott að meta.

Nei, ég er að ýkja. En þó lúrir sannleikskjarni í öllum ýkjum, og uppblásnar fullyrðingar mínar eru engin undantekning: Það er vitavonlaust, mannskemmandi og til þess fallið að kremja björtustu vonir að hugsa um og meðhöndla nám sem hverja aðra peningalega fjárfestingu.

Nokkuð sem ég hef verið með á heilanum í dágóða stund síðustu mánuði er eftirfarandi staðreynd:

Ísland er uppfullt af bókstaflegum fæðingarhálfvitum sem á einhvern hátt komast upp með að vera fæðingarhálfvitar, sumir hverjir þénandi býsna góðan pening, aðrir rétt nurlandi endum saman, en flest á þetta fólk það sameiginlegt að vera svo greindarskert að það væri ekki hægt að greina það frá sæbjúga á vitsmunalegu Turing-prófi. Ég er ekki að segja að neinn sérstakur sé það — það er mitt að vita og ykkar að giska á hverja ég er að hugsa um — heldur að þetta sé staðreynd. Og ef fæðingarhálfvitarnir geta komist af, jafnvel skuldsettir upp fyrir rjáfur!, þá getur þú það líka — hvort sem þú ákveður að velja gagnslausu gráðuna, sem þú myndir elska, eða nytsamlegu gráðuna, sem þér finnst alveg allt í lagi en kveikir ekkert sérstaklega í þér þegar öllu er á botninn hvolft.

Auðvitað er ég að alhæfa um of. Það eru ekki bara góðar en gagnslausar gráður og vondar en nytsamlegar gráður. Það væri fölsk tvíklofnun. Auðvitað getur þér fundist nytsamlegar gráður eins og viðskiptafræði eða álíka langtum áhugaverðari og skemmtilegri en þær innan gæsalappa gagnslausu, og ég verð sá síðasti til að gagnrýna þig fyrir það. Ég fagna því að þú hafir uppgötvað eitthvað sem þú elskar. Það sem ég held fram er það að kjósirðu aðeins út frá sambærilega falskri tvíhyggju gagnsemi og gagnsleysis sértu kominn í algjört og djúpstætt klandur.

Það sem ég er að reyna að segja hérna er að lífið er stutt. Það er enginn tími til að eyða því í eitthvað laklegt, hálfkosta. Ekki velja eitthvað sem þú hefur ekki trú á til þess að uppfylla staðla sem annað fólk setur þér. Uppfylltu þína eigin staðla. Fylgdu draumnum, þótt hann verði kannski stuttlifður — bara þrjú ár í háskólanum heima eða eitt ár í útlöndum — því draumar eru það eina sem er nokkurs virði í þessum heimi.

Við vinnum, sköpum, framfleytum okkur í nafni drauma og hugmynda, og það er geðveila að halda því fram að draumórar séu tímasóun, að alvöru heimurinn bíði þín að fantasíunni lokinni, að þú verðir að vera pródúktífur meðlimur samfélagsins með því að velja markaðsvænustu gráðuna — vegna þess að þessar fullyrðingar eru einnig draumórar. Draumórar annarra, ekki þínir eigin. Draumórar eignafólks, stórkapítalista, stjórnmálafólks. Þessir draumórar þurfa ekki að vera þínir eigin. Byrjaðu á því að leggja þá frá þér, og finna hvort þér sé létt eða þyngt. Þá fyrst geturðu farið að taka raunverulegar ákvarðanir.

Þversagnakenndar vangaveltur

Þversagnakenndar vangaveltur

Réttarspeki Hegels — II. hluti: Réttur og Eign

Réttarspeki Hegels — II. hluti: Réttur og Eign