Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Þversagnakenndar vangaveltur

Þversagnakenndar vangaveltur

Flókindi og umframeinfaldanir

Nauðsynlegur hluti þess að lesa G.W.F. Hegel er að komast í skilning um hvernig þetta flókna og oft á tíðum óljósa hugtak um díalektík er notað í skrifum hans. Það er mjög oft útskýrt á grundvelli þess að tvær mótsagnakenndar hugmyndir mætist, skelli saman og bráðni í eitthvað eitt nýtt sem útilokar það mótsagnakennda í hinum fyrri tveimur. Þá er hugtökum á borð við tesa, andtesa og syntesa skellt á þessa þrennu og henni talið lýst til fulls. Horfið á hvaða fimm mínútna Youtube-myndband sem er um Hegel og þið munuð fá þessa grunnhyggnu útskýringu og nánast ekkert annað um hugsun hans, fyrir utan kannski stutta og lélega útskýringu á hugmynd hans um Drottnara og Þræl. 

Staðreyndin er þó sú að þetta er að miklu leyti flóknara en svo, þessi díalektík. Í fyrsta lagi notaði Hegel sjálfur aldrei þetta orðalag yfir sínar eigin díalektísku einingar og mér finnst sem hann hugsi yfir höfuð ekki um díalektík eins og þessar einfölduðu útskýringar vilja meina að hann geri. Ég hef lesið sitthvað um þetta, bæði í hans eigin verkum (Introductory Lectures on Aesthetics, Outlines of the Philosophy of Right, valdir kaflar úr Encyclopaedia) en utan þess að lesa Hegel í sínum eigin skrifum bendi ykkur á hinn ágæta inngang að díalektík eftir Anthony nokkurn Wolf, hlekkur hér, og mæli einnig með að þið rennið yfir Stanford alfræðiorðabókarfærsluna sem ég hlekkja hér. Annars er hægt að lesa Rökfræði Hegels annað hvort hér á vef marxista, en svo hef ég líka sótt eintak af verkinu í PDF-skrá sem má hala niður með því að klikka hér.

Þótt ég gæti lesið mig rauðan í framan af texta eftir annað fólk þá finnst mér ég samt þurfa nauðsynlega að gera tilraunir til þess að setja díalektíkina í mín eigin orð svo ég geti komist að betri skilningi. Eftir að hafa gert tvær prófraunir til þess að greina frá innihaldi Outlines of the Philosophy of Right og notast í fljótu powerpoint-kynningarlegu bragði við fyrrnefnda tesu/andtesu/syntesu þrenningu finnst mér ég þurfa að skoða þetta betur og jafnvel lagfæra færslurnar með krítískum augum. Kallið þessa grein fyrstu drög að skilningi mínum, og vitið að fleiri munu líklega koma til með að birtast hér með tíð og tíma, sem gætu jafnt verið gagnrýnar á þessa grein.

Thesis/Antithesis => Synthesis vs. Abstract/Negative => Concrete … eða hvorugt?

Þessar þrenndir um tesur og konkretur eru gjarnan notaðar til skýringar á þessu díalektíska ferli en það gæti verið að vandamálið við þær sé það að þær útskýri í raun ekkert hvað sé að gerast í þessari gagnrýnu hugsun sem Hegel beitir gegnum díalektík. Það mesta sem þessi uppsetning getur gert er að gefa manni grunnan skilning á því að gagnrýnin fylgi einhverri formlegri festu, svona að mestu leyti, hvað sem gagnrýnt er — en jafnvel þótt við samþykkjum það erum við engu nær því að skilja hvað raunverulega felst í díalektík. 

Ef ég hefði aðeins þessa útskýringu fyrir framan mig hefði ég engan skilning á hugmyndinni, þ.e.a.s., ég gæti bara sagt „Hegel heldur að stundum komi tvær andstæðir hlutir saman og verði að einum sem inniheldur ekki mótsagnir,” en það væri hörmuleg útskýring — ég væri ekki í neinum skilningi um umræðuefnið sjálft. Ljóst er að allar raunverulega nákvæmar og tæmandi lýsingar á díalektík verða að gera tilraunir til þess að greina frá öllum blæbrigðum hugsunarinnar og hreyfingunni sem felst í henni. Það nægir ekki að setja upp generískt formlegt ferli sem lýsir gagnrýninni í hinum grófustu dráttum og engu öðru.

Orðið díalektík á sér auðvitað dýpri rætur, rætur sem lýsa annarri birtingarmynd sem koma löngu fyrir þýska hughyggju og þetta gagnrýna ferli sem um ræðir. Sókrates átti í díalektískum samræðum þegar hann rökræddi við viðmælendur sína um hvað fælist í því að vera guðrækinn eða réttlátur — hann rannsakaði staðhæfingar þeirra og gagnrýnir þær. Hann bendir á mótsagnakennda spennu innan þeirra sem sýna viðmælendunum svo að skoðun þeirra geti ekki gengið upp í þeirri mynd sem þeir halda fram og neyðast þar með til að endurskoða þær. 

Hegel gagnrýnir hugmyndir og verundir á sambærilegan en nákvæmari hátt með það að markmiði að komast að betri skilningi og þekkingu um eðli þessara hugmynda og verunda. Díalektík Hegels gengur út á það að greina það sem gengur á innra með hverju og einu rökfræðilegu og/eða sönnu hugtaki. Við skiljum hlutina ekki fullkomlega ef við lítum aðeins á þá eins og þeir birtast okkur fyrst. Skilningur okkar á þessum hlutum byggir á hugmyndum sem eru aðeins gefnar í skyn við fyrstu sýn, hugmyndum sem við gerum á djúpstæðan og óumflýjanlegan hátt ráð fyrir án þess að vita af því sjálf. Innra með þessum hugtökum býr spenna, segir Hegel — spenna í eðli þeirra sjálfra, óhjákvæmileg spenna — sem okkur er unnt að greina í hluta sem renna endalaust saman og slitna í sundur.

Augnablik/upphafning/eyðing

Áður en ég reyni að lýsa ferlinu nánar vil ég snerta örstutt á hugtökunum sem við þörfnumst til að hugsa um það. 

Ég hef áður þýtt hegelska hugtakið moment (á þýsku Augenblick), þessar mótsagnakenndu eðlislægu einingar, sem augnablik. Augnablikin eru analógísk við þessi klassísku hugtök um tesu, andtesu, syntesu, en eru þó ekki eins aðgreind og sértæk og þessi oftnefnda þrennd kann að gefa í skyn. Augnablikin eru ástönd þátta hvers hugtaks fyrir sig: hugtakið Verðandi inniheldur augnablik Verundar og augnablik Óverundar, og er sjálft eitt og stakt augnablik innan ferlisins.

Annað hugtak sem er okkur nauðsynlegt til þess að skilja díalektíkina er þýska hugtakið “aufhebung“ sem hefur verið þýtt á ensku sem sublate. Hvernig það hefur verið þýtt á íslensku veit ég ekki svo ég ætla einfaldlega að gera tilraun til þess hér og nú — ég vil gjarnan notast við orðið upphafning. Auf- getur þýtt upp- og er notað þannig sem forskeyti meðan -hebung er myndað af orðinu heben, sem þýðir einfaldlega að lyfta einhverju. Aufhebung er þó notað bæði á þennan hátt — að einhverju sé lyft upp — en einnig felst ákveðin tvíræðni í upprunalega orðinu sem glatast í þýðingu minni; að einhverju sé lyft í þeim skilningi að því sé aflétt. Þannig inniheldur upphafningin bæði þá athöfn að færa eitthvað upp og að eyða því samtímis.

Að lokum vil ég þýða orðið negation eða “Verneinung” sem neitun. Neitunin er mínusinn á móti plúsnum, það sem eyðir, gerir út af við andstæðu sína. Ég var óviss um hvort neitun eða eyðing væri betri þýðing, svo það er vert að hafa í huga að það gæti endrum og eins átt betur við einskonar eyðingu að sama skapi og það lýsir neitun. Neitun má þá á enn einn hátt lýsa sem rökfræðilega formerkinu ¬ (einnig ~ stundum) sem þýðir einfaldlega ekki [eitthvað tiltekið x]: „Verundir Aristótelesar geta aðeins breyst á þann hátt að þær annaðhvort verða til eða eyðast — verund hefur því aðeins annað tiltekinna ástanda F eða ¬F.“

Díalektík, augnablik fyrir augnablik

Rökleg framsetning Hegels hefur ávallt þrjár hliðar, þrjú augnablik, aðskiljanleg en á sama tíma ein:

In point of form Logical doctrine has three sides: [a] the Abstract side, or that of understanding; [b] the Dialectical, or that of negative reason; [c] the Speculative, or that of positive reason. These three sides do not make three parts of logic, but are stages or ‘moments’ in every logical entity, that is, of every notion and truth whatever. They may all be put under the first stage, that of understanding, and so kept isolated from each other; but this would give an inadequate conception of them. The statement of the dividing lines and the characteristic aspects of logic is at this point no more than historical and anticipatory.
— G.W.F. Hegel, Enzyklopädie (First part, Chapter IV: Logic Defined & Divided, Note to §79)

Hér að neðan mun ég gera nánari grein fyrir hverju og einu augnabliki í díalektíska ferlinu og hvað þær fela í sér. Að því loknu mun ég svo gera tilraun til þess að setja upp dæmi um tiltekna díalektíska þróun.

[A] Fyrsta augnablik — Skilningur

Skilningurinn er byrjunarpunkturinn okkar. Hann er aðgreinandi hugsun sem skilur hluti í heiminum sem sértæka og einstaka hluti, heila í sjálfu sér og sem slíka sjálfum sér næga. Skilningurinn er abstrakt — hann horfir á hlutina eins og þeir birtast honum fyrst og metur þá á altækan hátt. Skilningurinn tekur fyrirbæri alheimsins fyrir og greinir þau niður í liði; í eðlisfræði greinum við að efni og kraftana sem verka á það, rúmið og tímann og svo framvegis; líffræði tekur fyrir lífverur og gefur þeim skilgreiningar eftir flokki, tegund, ríki, ættbálk og svo framvegis.

Hegel talar um að rökleg hugsun sé alls ekki huglæg — bundin hverjum hugsandi einstaklingi fyrir sig  — heldur sé hún hið altæka og hlutlæga. Hann talar um hina Guðsgefnu gæsku í þessu samhengi:

Understanding in this larger sense corresponds to what we call the goodness of God, so far as that means that finite things are and subsist. In nature, for example, we recognise the goodness of God in the fact that the various classes or species of animals and plants are provided with whatever they need for their preservation and welfare.
— G.W.F. Hegel, Enzyklopädie (First part, Chapter IV: Logic Defined & Divided, Note to §80)

Skilningurinn er nauðsynlegur hluti bæði fræðilegrar kennihugsunar og praktískrar raunheimabreytni. Það eru svo ótal margir hlutir í heiminum sem eru áhugaverðir og þess verðir að maður þekki þá og skilji samhengi þeirra í stóru myndinni — spænsk ljóðlist, efnafræði, stjórnmál og tónlist eru öll einstaklega áhugaverð — en Hegel segir að til þess að raunverulega komast að Vísindalegri þekkingu (hér í skilningi Hegels, ekki í hinum nútímalega skilningi empirískra og afsannanlegra kenninga) um það sem um ræðir að hverju sinni verði maður nauðsynlega að einbeita sér og skilningskröftum sínum að þessum eina og tiltekna hlut. 

Í hnotskurn: Skilningurinn snýr að því sem er — aðgreint, einstakt — fullt í sjálfu sér.

[B] Annað augnablik — Díalektík eða neitandi skynsemi

Í öðru augnablikinu, sem Hegel nefnir Díalektíkina eða hina neitandi skynsemi, snýst viðfangsefni Skilningsins við og upp í andstæðu sína. Þannig breytist það sem er í það sem er ekki, það sem lifir í það sem deyr. Við vitum að heimur skynverundarinnar er hverfull — ekkert í honum er óháð tíma, ekkert í honum er óbreytanlegt. Allt sem getur verið getur að sama skapi ekki orðið. Mikilvægt er þó að skilja að þessi breyting er ekki bara eitthvað sem verkar á hlutina utanaðfrá. Andstæða þeirra er innbyggð í þá — allt breytilegt inniheldur í eðli sínu frjókorn andstæðu sinnar. Líf hefur þannig í sér forsendur dauða og öfugt, sem gerir það að verkum að lífvera getur kallast lifandi. Allar verundir hafa í sér tómið og öfugt, og eru því forsendur verðandinar.

[…] We must not suppose that the recognition of its existence is peculiarly confined to the philosopher. It would be truer to say that Dialectic gives expression to a law which is felt in all other grades of consciousness, and in general experience. Everything that surrounds us may be viewed as an instance of Dialectic. We are aware that everything finite, instead of being stable and ultimate, is rather changeable and transient; and this is exactly what we mean by that Dialectic of the finite, by which the finite, as implicitly other than what it is, is forced beyond its own immediate or natural being to turn suddenly into its opposite.
— G.W.F. Hegel, Enzyklopädie (First part, Chapter IV: Logic Defined & Divided, Note to §81)

Díalektíska augnablikið snýr því sem Skilningurinn sér á haus, gerir það sem er að því sem er ekki — neitar því sem fyrst var haldið — í sjálfsupphafningarferli þar sem viðfangsefni Skilningsins á sama tíma bæði eyðir sér og viðheldur sér, á þann hátt að það færist yfir í andstæðu sína (sem inniheldur svo frjókorn andstæðu sinnar aftur, sem var hið upprunalega viðfangsefni Skilningsins. 

Í hnotskurn: Díalektík tekur viðfangsefni Skilningsins og snýr því öfugt eða neitar því, en gerir það í ferli sjálfsupphafningar sem viðheldur upprunalega viðfangsefninu sem hluta af neituninni.

[C] Þriðja augnablik — Rannsakandi hugsun eða játandi skynsemi

Þriðja og síðasta augnablik ferlisins klófestir svo einingu hinna tveggja andstæðu eiginleika augnablikanna sem komu á undan og er sem slík hin jákvæða (e. positive) niðurstaða viðfangsefnisins. Tiltekið viðfangsefni F hefur því aðeins eiginleika A að því gefnu að það geymi innra með sér hinn andstæða eiginleika ¬A, og eining þessara tveggja augnablika myndar svo F. 

Eins og Hegel segir hér að ofan er mögulegt að greina augnablikin í sundur sem Skilning/Díalektík/Hugsun til þess að ná skilningi á ferlinu. Það er þó óhjákvæmilega ófullkominn skilningur þegar maður hugsar um það í aðskildum skrefum en ekki sem einingu í stöðugu milliflæði augnablikanna. 

Síðasta augnabliki ferlisins hefur verið lýst sem neitun neitunarinnar (e. negation of the negation), þar eð það eyðir út mótsögninni sem myndast milli þátta Skilnings og Díalektíkur. Þetta augnablik verður til af einskonar rökfræðilegri nauðsyn, eins og niðurstöður rökhendu sem verða nauðsynlega að leiða af gefnum forsendum hennar, ef þær reynast sannar.

Það sem verður eftir er ákveðið tóm (áhersla á ákveðið) þar eð tómið myndaðist að rannsakandi ferlinu loknu og er því niðurstaða þess. Hugtakið sem verður til úr ferlinu kemur þá í staðinn fyrir, en varðveitir á sama tíma, það sem kom á undan. Þessu er ef til vill best lýst með fljótlegri rissu af hegelsku díalektísku ferli, teknu úr Rökfræði hans, sem varðar Verund, Tóm og díalektíska einingu þeirra, sem er Verðandi. Hér að neðan mun ég gera tilraun til þess að lýsa þeirri hreyfingu í grófum dráttum.

Verund, Tóm, Verðandi

Í fyrstu höfum við Verundina sjálfa: hún er hrein hugsun, milliliðalaus, einföld og óákveðin. Þessi byrjun er ekki miðluð í gegnum neitt, né er hún fremur ákveðin á nokkurn hátt. Við erum þá aðeins að tala um Verund sem hreina abstrakt hugsun, óháða nokkru efnislegu. Þegar við byrjum að hugsa höfum við ekkert nema óákveðni: við getum ekki verið ákveðin nema við hugsum um eitthvað eða eitthvað annað, og til að byrja með er ekkert annað. 

Þessi Verund er ekki eitthvað sem er hægt að finna eða skynja eða ímynda sér: hún er einfaldlega og nauðsynlega ekkert nema hugsunin sjálf, og er því byrjunin. Við rekumst þó strax á hindrun í þessari greiningu okkar. Vegna þess að Verundin er svo óákveðin og hrein — þ.e.a.s., vegna þess að hún á ekki við neitt — þá breytist hún og verður í raun Tóm. Það sem var áður hrein Verund hefur nú snúist upp í andstæðu sína, Ekki Verund, eða Tóm. Tóm er ekki neitt, skilgreiningarleysi, neind. 

Þannig höfum við þegar rekist á fyrsta og annað augnablik ferlisins — Skilnings-augnablikið og Díalektíkur-augnablikið. Það sem okkur virtist vera sjálfstæð og einstök aðgreind eining bjó eftir allt saman yfir eiginleika sem gekk þvert á þess eigin skilgreiningu — Verundin var svo óveruleg að í henni var Tómið sjálft! Munurinn á þeim, þessu Tómi og hinni óákveðnu og hreinu Verund, er raunar nánast enginn — hann er aðeins til málfræðilega, í skilgreiningu. Ekkert er skilgreint undir Verundinni og Tómið inniheldur ekkert sem er, en er þó — og hefur því Verund. Verundin sjálf, þótt hún sé hugsun, er engin tiltekin hugsun, og getur því ekki verið neitt nema ekkert, eða Tómið.

Tómið er þá hið sama og Verundin. Sannleikurinn um Verund og Tóm er þá sá að saman mynda þau Verðandina. Verðandin samanstendur af hvarfi Verundar og Tóms inn í hvort annað, myndandi eina þriðju heild. Verundin og Tómið eru þá á sífelldri hreyfingu, ef það er hægt að sjá það þannig fyrir sér, flæðandi saman í endalausum hring. Í Verðandi eru í fyrsta lagi Verund sem verður ein með Tómi, og í öðru lagi Tóm sem verður eitt með Verund. Þetta mætti skilgreina nánar sem jákvæða Verðandi og neikvæða Verðandi: það sem er að verða Verund og það sem er að verða Tóm. Verðandin er hreyfingin milli hugtaka, sem slík.

Mótsagnirnar sem felast í Verðandi hrynja svo undan eigin þunga. Endalaus hringiða Verundar og Tóms sem myndaði jákvæða og neikvæða Verðandi hverfur þegar neikvæða Verðandin neitar Verundinni og jákvæða Verðandin neitar Tóminu. Það sem við sitjum uppi með þegar öllu er lokið er Tiltekin Verund: Ekkert — en þetta Ekkert er sérstakt vegna þess að það hefur tiltekna og ákveðna tilvist. Það er ákveðið Ekkert. Það er Ekkert sem Varð að ákveðnu, tilteknu Tómi, tóm sem hefur Verund.

Dæmið um Verundina, Tómið og Verðandina er tekið úr Encyclopedia of Philosophical Sciences: The Logic e. G.W.F. Hegel; nánar tiltekið málsgreinar §84-89 í kafla VII. “Being”. Sérstakar þakkir fær Anthony Wolf fyrir hina prýðilegu skýringarmynd í grein sinni “Dialectics: An Introduction” sem ég hef hlekkjað hér að ofan.

Skilningur á díalektísku ferli … sem díalektískt ferli?

Ljóst er að það nægir ekki að horfa á díalektík Hegels sem einhverja einfalda og grunna formúlu um sambræðing tveggja andstæðna. 

Fremur er díalektíkin hvöss og gagnrýnin greining á eðli hlutanna, greining sem rannsakar bæði hliðar þess sem hlutur er og þær sem hlutur er ekki. Þannig getur hún gefið okkur skýra mynd af tilteknu viðfangsefni. Hún lýsir enn fremur vinnsluferli hugarins og hvernig hann nær taki á fullum skilningi á einhverjum hlut eða hugtaki.

Díalektík hefur ýmist verið gagnrýnd fyrir hve óljós og þokukennd hún er en þrátt fyrir það hefur hún óneitanlega haft gífurleg áhrif á heiminn í kringum sig, sérstaklega í gegnum verk Karls Marx sem sneri henni á hvolf í þágu efnishyggjunnar. Það er því öllu áhugafólki um heimspeki og hugmyndasögu hollt að rannsaka hugtakið nánar og þróun þess í síðari spekingum.

Only the penetrating power of reason focused on conceptual purity and holding steadfast to a development of a concept from its inner structure can properly make intelligible why such terms are inextricably united at all, and what could logically follow from their contradictory unity.
— Anthony Wolf, “Dialectics: An Introduction”

Að lokum vil ég bara segja stuttlega að ég vona að ég hafi veitt einhverjum nánari innsýn í þetta alræmda hugtak, díalektík. Ég á ýmislegt eftir ólært en kynnist vafalaust ýmislegu nýju einmitt með því að skrifa um það hingað á þetta fábrotna sýndarpláss mitt. Það er ærið skemmtilegt að vera lærisveinn Hegels, skrifa um hann, hugsa um kenningar hans og gera tilraunir vil að verja hann frá árásum gagnrýnenda hans — eða eins og Karl Marx sagði í inngangi sínum að Auðmagninu:

Meðan ég vann að fyrsta bindi Auðmagnsins varð það mesta nautn hinna sifrunarsömu og hrokafullu meðallagshermikrákna, sem nú slá um sig meðal menningarsinnaðra Þjóðverja, að lýsa Hegel […] sem ‘dauðum hundsrakka.’ Ég lýsi mig því hér með opinberlega lærling þess mikla hugsuðar.
— Karl Marx, Capital Vol. 1, bls. 19-20, í þýðingu ritgerðarhöfundar

P.S.: Ég geri mér grein fyrir því að einhverjum gæti þótt þægilegra að lesa þessa langdregnu ritgerð í PDF-skjali svo ég set eitt slíkt í viðhengi hingað handa ykkur (það kann að vera einhver örlítill blæbrigðamunur á textanum milli skjala). Njótið vel!

Reykjavík, 2016

Stutt hugleiðing að háskólaönn lokinni

Stutt hugleiðing að háskólaönn lokinni

Málsvörn gagnsleysisins

Málsvörn gagnsleysisins