Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Mikillæti, ofurmenni og  heimssagan sjálf

Mikillæti, ofurmenni og heimssagan sjálf

Eftirfarandi ritgerð var skrifuð fyrir áfanga í Háskólanum og fjallar um dyggðasiðfræði Aristótelesar. Ég hef hent burt öllum neðanmálsgreinum og tilvísununum inni í textanum en heimildaskrá má finna neðst. Ef einhvern þyrstir í að lesa ritgerðina frekar í ritgerðarlegra formi má hala henni niður hér. Málverkið í haus síðunnar heitir Christina's World og er eftir Andrew Wyeth.

Í fjórðu bók Siðfræði Níkomakkosar skrifar forngríski heimspekingurinn Aristóteles um hinar ýmsu siðrænu dyggðir, eftir að hafa fjallað um heiður, hugrekki og hófsemi og forsendur siðrænna dyggða í þriðju bók sinni. Í 3. bók kynnir hann einnig hugtak sitt um meðalveginn sem dvalarstað dyggðanna — sem lýsir sér í örstuttu máli í því að dyggðir megi finna mitt á milli siðferðilegra öfga.

Hugrekki, svo dæmi sé tekið, er þá mitt á milli fífldirfsku og hugleysis. Í fjórðu bók heldur Aristóteles svo áfram að þylja upp hinar ýmsu dyggðir, öfga þeirra og meðalvegi. Veglyndi, stórlyndi, metnaður, geðprýði og vinátta, meðal annarra, eru meðal þeirra meðalvegsdyggða sem Aristóteles telur viðeigandi — og flest yrðum við sammála honum, jafnvel þótt árþúsund hafi liðið. Það fer mönnum vel að vera sparneytnir án þess að vera nískir, örlátir án þess að vera skefjalausir (Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar IV 2, 1122a29), hvort sem er í fornöld eða í nútímanum. Slíkt atferli er jú einfaldlega til marks um heilbrigða skynsemi, sjálfstraust og þekkingu. Sama gildir um að vera góður vinur, og að vera geðprúður, metnaðargjarn, og þar fram eftir götum.

Hins vegar er ein dyggð sem hefur sannarlega valdið usla. Heimspekingar á borð við Bertrand Russell og Alasdair McIntyre hafa veigrað sér við að viðurkenna hana sem dyggð, kallað hana dónaskap og tilfinningafátækt og þar fram eftir götum. 

Þessi dyggð kallast μεγᾰλόψῡχος í upprunalegu grískunni, eða mikillæti í þýðingu Svavars H. Svavarssonar prófessors. Enska þýðingin, sem er etv. fremur beinþýðing á orðinu, er Stór-Sálu-Leiki (e. great-souled man). μεγᾰς/megas er lýsingarforskeyti sem þýðir „mikill“ en ψῡχή/psuche þýðir sál. Saman gefur þetta því “mikil sál” eða “stórsálugur”. Í ritgerð þessarri hyggst ég kanna merkingu dyggðarinnar, andmæli við henni og mótrök við þeim, auk þess sem ég mun kanna og bera saman hugmyndir annarra heimspekinga um mikilláta eða stórmannlega einstaklinga.

Mikillæti, eins og flestar aðrar dyggðir, er millivegur tveggja öfgafullra siða. Annar öfginn er þá lítillæti en hinn hégómi. Þá er sá maður lítillátur sem telur sjálfan sig „verðskulda minna en hann í raun verðskuldar,“ (Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar IV 3, 1123b16) og sá er hégómlegur sem „óverðugur telur sjálfan sig verðskulda mikið.“ (Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar IV 3, 1123b12) Mitt á milli þessarra lasta er svo mikillæti — en maður telst mikillátur þegar „[maður] er verðugur og telur sjálfan sig mikils verðan.“ (Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar IV 3, 1123b1) Sá mikilláti þarf því að hafa tvennt til þess að geta sannarlega talist mikillátur — í fyrsta lagi þarf hann að verðskulda og í öðru lagi þarf hann að hafa nægilega þekkingu á sjálfum sér til þess að vita að og hvað hann verðskuldar. Saman tvinnast þessi persónueinkenni í mikillætið, stórmannlegt og aristókratískt lunderni.

Í grein Kristjáns Kristjánssonar frá 2002 snertir höfundur á þessari dyggð og þýðir hana þar sem stórmennska — þar eð honum finnst orðið mikillæti gefa til kynna oflátungsbrag. Kristján reynir að verja mikillætið fyrir ásökunum þeirra sem ráðist hafa á það fyrir hina eða þessa ástæðu — og er af mörgum að taka. Maðurinn mikilláti hefur verið sakaður um að vera hrokafullur, snobbaður og hégómlegur, vanþakklátur, latur og sjálfhverfur. Kristján telur flesta gagnrýni þessa marklausa.  
Sá mikilláti, segir Kristján, er skilgreiningu samkvæmt ekki hrokafullur eða hégómlegur — heldur er það jákvæður öfgi eða löstur dyggðarinnar. Vanþakklátur er sá mikilláti varla heldur, þar eð hann geldur allt það sem hann fær til baka — og með vöxtum, svo ljóst sé að hann búi ekki við nein bágindi. 

Þá hafa menn á borð við W.F.R. Hardie einnig gagnrýnt manninn mikilláta fyrir að vera kaldlyndan, fjarhuga og óáhugasaman um allt það sem ekki er mikils vert og merkilegt. Kristján færir rök gegn því að það sé á einhvern hátt slæmt að beita öllum sínum lífs og sálar kröftum fyrir einhverjum einum mikils verðum hlut — til að mynda væri fáránlegt að saka Nelson Mandela um að hafa eytt allri orku sinni í baráttunni gegn apartheid-stefnu suður-afrískra stjórnvalda á sínum tíma en ekki varið nægilega miklum tíma í að berjast fyrir bættri stöðu einhverfra. 

Mikillæti, að svo er virðist, er dyggð þeirra sem skara fram úr þorra manna; dyggð hins dyggðugasta, kórónuð fullgjörð mannleiksins. Aðeins sá sem er raunverulega dyggðugur að öllu öðru leyti hvað varðar göfgi og góðleika (Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar IV 3, 1124a5) getur orðið mikillátur, og af því má leiða að mikillætið sé sjaldgæf dyggð en tilkomumikil. Sá mikilláti sækist eftir völdum og auð, en aðeins að því leyti sem yfirráðin og eignirnar geta aukið við virðingu hans meðal manna. Hann hefur í raun ekkert að gera með auðinn eða völdin sem slík, heldur eru þau meðal helgað af tilgangnum — en tilgangurinn er að vera mikils metinn fyrir verðskuldaða hæfileika sína til stórverka.

Aristóteles er þó ekki einn um að upphefja tiltekna manngerð og gera úr henni siðferðilegt jafngildi goðmagns meðal manna (Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar IV 3, 1123b31). Meðal þeirra sem hafa gert sér hugmyndir um manngerðir sem mætti telja mikillátar eru G.W.F. Hegel og Friedrich Nietzsche, sem koma úr ólíkum áttum.

Nietzsche, sem Kristján minnist einnig á í grein sinni, er frægur fyrir að hafa þróað hugtak sitt um Ofurmennið: „Orðið ‘Ofurmenni’, sem táknar tiltekna manngerð sem væri eitt sjaldgæfasta og heppilegasta sköpunarverk náttúrunnar, andstætt þeim „nútímamönnum,“ andstætt „góðum“ mönnum, […] fyrirmyndarmaður, æðri manngerð, hálfur dýrlingur og hálfur snillingur“. 

Ofurmennið er nokkuð loðið í skilgreiningu, en í bók sinni, Ecce Homo, segir Nietzsche að „manni gengi betur að leita Ofurmennisins í Cesare Borgia en í Parsifal,“ sem gæti gefið okkur hugmynd um það hvernig manngerð Ofurmennið er. Borgia var hertogi Valentinois, og eins og segir í Furstanum eftir Machiavelli var hann vægðarlaus og grimmur ráðamaður. Eitt dæmi um það var stjórnarnálgun hans í Romagna. Til þess að koma á reglu veitti hann Ramiro d’Orco stöðuhækkun. Sá Ramiro um að sameina lýðinn undir hertogadæmið, en með harðri hendi. Borgia myrti Ramiro svo til þess að „frelsa“ fólkið frá honum og vekja upp ótta. Fyrir þetta atferli hældi Machiavelli honum upp í hástert. Ofurmennið er því að líkindum ekkert lamb að leika sér við.

Þýski hughyggjuheimspekingurinn G.W.F. Hegel átti þá einnig hugtak yfir mann sem gæti þótt mikillátur eða stórmannlegur. Hegel kallaði þessa menn heimssögulega einstaklinga — menn sem hafa mótandi áhrif á sögu mannkyns. Júlíus Sesar, Alexander mikli og Napóleon eru allir dæmi um heimssögulega einstaklinga — menn sem eru í reynd holdgervingar skynsamra sögulegra framfara. Þeir eru ómeðvitaðir um hlutverk sín í heimsleikritinu — sem er að þjaka mannkyninu áfram í átt að auknu frelsi hvers einstaklings. 

Þeir eru það besta sem hvert söguskeið hefur upp á að bjóða og leika mótandi hlutverk innan þessarra skeiða. Þeir skynja betur en aðrir hvaða leið er rétt. Auðvitað væru þeir ekkert án mannanna sem fylgja þeim og mynda heri þeirra og svo framvegis, en þeir hefðu enga heri ef þeir hefðu ekki einhvern snert af meðvitund um altæku meðvitundina og réttindin sem búa innra með anda þeirra — eða eins og Hegel orðar það: „Það er þess vegna sem aðrir menn fylgja þessum sáluleiðtogum; því þeir finna ómótstæðilegt afl brjótast út í hetjunum — afl sem þeir þekkja sem sitt eigið sálarafl.“ (skáletrun mín eigin).

Ljóst er að stórmennskan, ofurmennskan, eða heimssöguleikinn eiga eitthvað sameiginlegt, þótt það kunni ekki að vera margt. Ofurmenni Nietzsche er grimmara og skeytingarlausra en sá mikilláti, og sá heimssögulegi kann að vera mikillátur, en sá mikilláti þarf alls ekki að vera heimssögulegur. Þau eiga það þó sameiginlegt að öll lundernin þrjú eru á sinn hátt andlegt örlæti, mikilfengleiki, háleitni. Þau skara framúr, þau feta ótroðnar slóðir. Þau eru veraldleg og pragmatísk, samfélagsleg, trúföst á það að mannleikinn sé ekki einskis virði, að það sé gildi í athöfnum okkar.

Það er kannski þetta umfram allt annað sem við ættum að læra af mikillætinu — að dyggðin sé eftirsóknarverð, að mannleg tilvist sé gleðileg og hýr — og að ef við getum tekið mikillætið til okkar muni farsældin vafalaust fylgja fljótt á eftir.


HEIMILDASKRÁ:

1. G.W.F. Hegel. Introduction to The Philosophy of History. Þýð. Leo Rauch. (Indianapolis & Cambridge: Hackett Publishing Company, 1988).

2. Friedrich Nietzsche. Twilight of the Idols with The Antichrist and Ecce Homo. Þýð. Antony M. Ludovici. (Hertfordshire: Wordsworth Editions Limited, 2007).

3. Niccolò Machiavelli. The Prince. Þýð. W. K. Marriott. (London: Arcturus, 2010).

4. Kristján Kristjánsson. „Stórmennska“, í Mannkostir (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2002).

5. Aristóteles. Siðfræði Níkomakkosar. Þýð. Svavar Hrafn Svavarsson. (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1995).

Innantómar eilífðir

Innantómar eilífðir

Réttarspeki Hegels — III. hluti: Samningar

Réttarspeki Hegels — III. hluti: Samningar