Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Þegar Žižek skrifaði fyrir Abercrombie

Þegar Žižek skrifaði fyrir Abercrombie

Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek er frægur fyrir hitt og þetta — meðal annars þykka austur-evrópska hreiminn sinn, óheflaða skeggvöxtinn, síendurteknu yrðingarnar um hugmyndafræðina sem umlykur okkur og síðast en alls ekki síst ber að nefna kækinn þar sem hann hnussar og sýgur upp í nefið og klípur um það á sama tíma. Hann er óneitanlega orðinn að stjörnuheimspekingi, og svo virðist sem maður sjái bara sífellt meira af honum með hverjum deginum sem líður — sérstaklega nú í kringum forsetakosningar Bandaríkjamanna og botnfallið af þeirri katastrófu.

Hann hefur átt skrautlegt líf, karlinn; hann hefur boðið sig fram til forseta, gifst þrisvar — heimspekingi, módeli og blaðamanni — auk þess sem hann á einn son, skrifað ótal bækur og birst í kvikmyndum þar sem hann rausar um hugmyndafræðina bak við það sem gerir kalt kók unaðslegt og volgt kók viðbjóðslegt. Þetta hefur samt ekki vakið athygli mína eins og það sem ég rakst á fyrir stuttu. Ég komst að því að Slavoj Žižek hefði skrifað fyrir auglýsingabækling á vegum tískufyrirtækisins alræmda Abercrombie & Fitch árið 2006!

Tískubæklingurinn er tæplega 130 blaðsíður að lengd og inniheldur ljósmyndir af hálfnöktum fyrirsætum, körlum jafnt og konum. Þær sitja fyrir innanhúss og utanhúss, misvel klædd — sum alveg nakin — en öll virðast þau vera ung, frjálslynd og hamingjusöm. Sum jafnvel lostafull.

Textabrot frá Žižek eru límd yfir myndirnar og þættirnir tveir blandast saman í hálffáránlegan kokteil: holdgervingar hinnar alhjúpandi neysluhyggju eru settir upp á móti heimspekilegum tákngervingi krítískrar menningarteoríu! Já, nokkuð fráleitt. Í lok heftisins skrifar Žižek svo yfir hálfnöktum drengslíkama í kaldhæðnislegum játningartón:

“Usually from a conservative cultural standpoint, the problem with today’s culture, especially youth culture, is that of ethics, specifically of standards, limits being blurred. For example, sometimes in the news you don’t even know what is publicity and what is news. That is to say that the news is turning into a kind of talk-show… What do I see? A utopian vision. A fugue. A truly modern synthesis. Shit, why not have a cake and eat it too? You can have critical theory and nudity and enjoy it!”

Ef þetta hljómar eins og mesta andskotans þvæla sem þið hafið lesið eftir Žižek, þá hafið þið líklega bara frekar mikið rétt fyrir ykkur. Í viðtali við blaðamann Boston Globe sem var forvitinn um málið sagðist Žižek hafa hent textanum fyrir bæklinginn saman á einhverjum tíu mínútum eða svo, reikandi fríhendis um eigin huga! Semsagt, þá er það sem hann er að segja að líkindum lítils virði, svona frá heimspekilegu sjónarmiði.

Í sama viðtali var hann spurður hvort það sæmdi nokkuð heimsþekktum spekingi sem honum að vera að skrifa í lágkúrulegt tískublað fyrir táninga. Hann svaraði þá fullum hálsi:

„If I were asked to choose between doing things like this to earn money and becoming fully employed as an American academic, kissing [EXPLETIVE] to get a tenured post,“ he growled, „I would with pleasure choose writing for such journals!“

Ég ætla að setja PDF-skjalið sækjanlegt og opið HÉR. En þið hafið verið vöruð við — það er NSFW, augljóslega. Og hvers vegna ertu annars að lesa veftímarit um heimspeki og bókmenntir meðan þú ert í vinnunni, haugurinn þinn? Haltu áfram að framleiða handa mér umframverðmæti, eða ég svipti þig heilsutryggingunni!

Gordíonshnúturinn