Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Gordíonshnúturinn

Sem barn las ég söguna um Gordíonshnútinn og hvernig Alexander mikli leysti úr deilu með því að einfaldlega skera á hann með hníf. Sagan um hnútinn hefur fylgt mér allt til þessa dags og hefur talsverða þýðingu fyrir mér. Hún kennir okkur að þótt stundum sé freistandi að láta leiðast til þess að sökkva sér ofan í sérstaklega áhugaverð vandamál þá séu þau stundum ekki tíma okkar virði - og þegar á heildina er litið eru þau kannski best afgreidd hratt og brussulega.

Ég hef öðlast nýja sýn á Gordíonshnútinn eftir að hafa lært um tilvist sníkjudýrsins Nematomorpha, sem stundum er kallað hesthársormur eða Gordiacea. Sníkjudýrið nærist á liðdýrum - sérstaklega bjöllum, kakkalökkum, beiðum og beinvængjum - og gerir skordýrin að eiginlegum þrælum sínum. Eins konar uppvakningum. Áður en ég held lengra í umfjöllun og útskýringum vil ég að þið horfið á myndbandið hér að neðan, svo þið fáið tilfinningu fyrir því hvernig Gordíonsormurinn lítur út:

Eins og þið sjáið er ormurinn margföld lengd beiðunnar, biksvört og fremur óhugnanleg áhorfs. Lesendur þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því að verða fyrir sýkingu af slíku sníkjudýri, nema að í hópi þeirra leynist læsar beiður eða fróðleiksfúsar beinvængjur. Eftir að lirfur ormsins koma sér fyrir í líkömum skordýranna vaxa þær hratt og örugglega, og éta af fæðu hýsilsins með því að draga inn í sig næringarefni beint í gegnum húðina.

Þegar kemur að því að ormurinn fari að klára lífsferil sinn sýkir hann svo hýsilinn með efnum sem binda hýsilinn í eins konar uppvakningskennda leiðslu - og hann finnur sig knúinn til að finna vatn og drekkja sér. Eins konar sjálfsmorðshvöt. Þegar í vatnið er komið finnur ormurinn að hann er snúinn aftur til heimkynna sinna og smeygir sér út um endaþarmsop skordýrsins til þess að leita sér maka og eðla sig á ný. Hér að neðan má sjá amatörlíffræðing losa um hesthárorm sem hafði leynst inni í líkama beiðu, án þess að drekkja hýslinum. 

Þegar í vatnið er komið leitar ormurinn sér að maka og þegar að eðlun kemur og tími er til kominn að láta erfðaefni sitt berast til komandi kynslóða slíðrast ormarnir saman í þrönga samfarahnúta - og þaðan hefur kenndin við Gordíonshnútinn eflaust komið.

Það er ekki laust við að hrollur leiki um mann við að lesa sér til um þessi dýr. Kannski er það geimveruleiki lífverunnar sem okkur finnst hvað viðbjóðslegastur - það er eiginlega ekki neitt sem við ormarnir og mannfólkið eigum sameiginlegt fyrir utan það að bæði notum við DNA og RNA til þess að framfleyta kyni okkar, auk þess sem við höfum efnislega tilveru og göngum fyrir orku. Lítið annað er sambærilegt milli tegundanna.

Það sem er hvað mest áhugavert en jafnframt ógeðslegt fyrir mér er geta ormsins til að hafa áhrif á hegðun hýsilsins. Með einföldum taugaboðefnasýkingum geta ormarnir neytt hýsla sína til þess að drekkja sér, hvorki meira né minna. Uppvakningar þekkjast ef til vill ekki (enn) í mannlegu samfélagi, en í skordýraheiminum eru uppvakningar raunveruleg og aðsteðjandi hætta sem beiður og kakkalakkar þyrftu að vara sig á - í fullri alvöru. The Walking Dead.

Þegar Žižek skrifaði fyrir Abercrombie

Þegar Žižek skrifaði fyrir Abercrombie