Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Fátækt túlkunarinnar: Hegel í skrifum Hannesar Hólmsteins

Fátækt túlkunarinnar: Hegel í skrifum Hannesar Hólmsteins

Mér var bent á það nýlega að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefði skrifað um Réttarspeki G.W.F. Hegels [þ. Grundlinien der Philosophie das Rechts] í verki sínu „Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör“ sem kom út árið 2009 á vegum Bókafélagsins. Fyrsti kafli verksins heitir einfaldlega Hegel og afkomuöryggi fátæks fólks og nær yfir blaðsíður 7-12 — svo þótt ekki sé um sérdeilis mikinn texta að ræða getum við gert ráð fyrir því að hann veiti okkur að minnsta kosti einhverja innsýn í skoðanir Hannesar Hólmsteins á Hegel. Þessi frumforsenda okkar virðist réttmætari þegar við lesum svo því næst í inngangsorðum bókarinnar að höfundur ætli sér að reifa kenningar tveggja stjórnmálaheimspekinga sem hafi þá helst sýnt hinum tekjulægstu áhuga. Þar nefnir hann Hegel og John Rawls. Það er athyglisvert að höfundur fjalli ekki um verk Karls Marx, sem mætti segja að sé sá stjórnmálaheimspekingur sem hefur sýnt hinum tekjulægstu einna hvað allra mestan áhuga — en hvað um það. Við skulum ekki velta því nánar fyrir okkur heldur vinda okkur um leið í það sem höfundur hefur að segja um hugsun G.W.F. Hegels. Heimildaskrá og viðaukar eru neðst á síðunni.

Í byrjun fyrsta kafla verksins hefur höfundur umfjöllun sína á stuttri lýsingu á því hvernig Adam Smith braut blað í hugmyndasögunni þegar hann varð einna hvað fyrstur til að skrifa um efnahagsstjórnspeki (e. political economy) eða það sem við köllum nú til dags einfaldlega hagfræði og sýndi fram á hvernig þjóðir gætu orðið ríkar ef þær stunduðu frjáls viðskipti og nýttu sér hið nýtilkomna framleiðsluferli verkaskiptingar. Frá þessu víkur höfundur að Hegel — þessum þýska heimspekingi sem vefst fyrir svo mörgum. Hegel, eins og Hannes segir réttilega, var með hinum fyrstu heimspekingum til þess að skilja hvað efnahagsstjórnspeki þýddi vitsmunalega séð, enda nýtilkomin vísindagrein á þeim tíma — eins og kemur fram í athugasemd við málsgrein §189 Réttarspekinnar

Political economy is the science which starts from this view of needs and labour but then has the task of explaining mass-relationships and mass-movements in their complexity and their qualitative and quantitative character. This is one of the sciences which have arisen out of the conditions of the modern world. Its development affords the interesting spectacle (as in Smith, Say, and Ricardo) of thought working upon the endless mass of details which confront it at the outset and extracting therefrom the simple principles of the thing, the Understanding effective in the thing and directing it. It is to find reconciliation here to discover in the sphere of needs this show of rationality lying in the thing and effective there; but if we look at it from the opposite point of view, this is the field in which the Understanding with its subjective aims and moral fancies vents its discontent and moral frustration.
— G.W.F. Hegel

Hannes heldur áfram og segir Hegel vera einn þann fyrsta til þess að greina fátækt sem úrlausnarefni fremur en eðlilegt ástand — að fátækt hafi, fyrir Hegel, ekki verið „skortur efnislegra gæða, […] heldur andstæða við auðlegð,“ — bls. 7, og að mati Hegels hafi vandinn við fátækt verið sá að kjör þeirra fátæku hafi virst miklu verri í samanburði við kjör annarra stétta sem bötnuðu hraðar. Þetta er að miklu leyti rétt greining hjá höfundi, að ég held (jafnvel þótt Hannes vísi ekki til staðar í textanum sem heimild fyrir þessari staðhæfingu og þótt ég geti heldur ekki fundið góðan grundvöll í textanum fyrir henni sjálfur)  en aðallega finnst mér ónákvæmt hvernig hann afgreiðir skilgreiningu Hegels á fátækt. Ekkert er fast og algjört í Hegel — öllu er miðlað — og það á við um fátækt eins og hvað annað. Fátækt er ekki einhver óhlutstæð andtesa auðlegðar fyrir Hegel heldur er hún nauðsynlegur þáttur í ferli auðmagnsins sjálfs, órjúfanlegur hluti flæðisins — og það var (meðal annars) þetta sem Marx gerði sér grein fyrir þegar hann las Réttarspekina. Ónákvæmnin sem um ræðir snýr einmitt að þessu: að fátækt hjá Hegel er ekki bara statísk andtesa auðmagns sem leiðir svo til syntesu eða álíka (eins og Hegel er oft settur upp) vegna þess að málið er miklu flóknara en svo. En þetta er vel afsakanlegt þar eð þótt þetta sé ekki nákvæmasta framsetningin er hún alls ekki röng. 

Boðberinn Hegel — mismunandi túlkanir

Hannes heldur áfram og talar þar næst um að Hegel hafi „haft áhyggjur“ af því að fátæklingar fylltust beiskju og hegðuðu sér ekki sem fullgildir borgarar innan samfélagsskipaninnar. Ég held að þetta sé ónákvæm lýsing á viðhorfi Hegels til stöðu fátækra — ef aðeins vegna þess hvernig höfundur beitir fyrir sig orðinu „áhyggjur“. Auðvitað kann að vera að hér sé um að ræða stílíska notkun á hugtakinu áhyggjur, en vegna þess hvernig höfundur meðhöndlar önnur umræðuefni sem koma á eftir þessu tiltekna viðfangsefni — umræðuefni á borð við það „hvernig ríkið starfar í raun og veru“ eða hvað viðkemur velferðaraðstoð eða að greining Hegels líkist boðskapi sænskra jafnaðarmanna (sbr. 𝜸 síðar) finnst mér ólíklegt að aðeins sé um stílbragð að ræða. Það sem angrar mig í öllum þessum dæmum er að höfundur les Réttarspekina sem fyrirmælabækling fremur en heimspekilega sundurgreiningu á því hvað Ríkið eins og það birtist Hegel árið 1820 fól í sér. Þetta er algengur lestur en að ég tel kolrangur. Að mínu mati er Réttarspekin alls ekki uppskrift að góðu eða réttlátu ríki eins og platónsk eða kommúnísk eða anarkókapitalísk kenning um útópíu gæti verið — heldur er Réttarspekin sundurliðuð greining á hugtakinu um Ríki sem slíkt í sögulegri birtingarmynd þess við ritun verks Hegels. Ríkið sem hann lýsir er ein og algjör heild og ekki beint sögulegt rúmtímaferli (eins og Hannes heldur síðar fram í texta sínum, sem ég snerti á að neðan) heldur ein heil og sjálfstæð hugtaksostra sem geymir perlu Viljans að innan. 

Þess vegna finnst mér rangt að tala t.d. um að Hegel hafi áhyggjur af einhverju — Hegel taldi sig beinlínis vera heimspekilegan vísindamann hvers starf var einfaldlega að miðla til okkar heimspekilega og nauðsynlega sönnum staðreyndum um innihald Hugtaksins. Hegel er ekki að segja að það sé nauðsynlegt að tryggja að fátæklingar fyllist ekki beiskju eða að breiða út boðskap heldur er hann bara að reyna að útskýra fyrir okkur sem ekki vitum betur hvað felst nauðsynlega í hugtaki Viljans (eins og hann skilur það, auðvitað): 1) Vilji felur nauðsynlega í sér Abstrakt Rétt, Siðferði og Siðlegt líf, 2) hið Siðlega líf felur nauðsynlega í sér þætti Fjölskyldu, Borgaralegs samfélags og Ríkis, 3) Borgaralegt samfélag felur nauðsynlega í sér Lögreglu og Félög, 4) Félög fela nauðsynlega í sér stéttaskiptingu og 5) stéttaskipting felur að lokum nauðsynlega í sér hugmyndafræðilegt ósætti og biturð fátæklinga. Það sem Hannes (og fleiri) túlka svo sem áhyggjur eða boðskap er það sem Hegel talar um að komi nauðsynlega til móts við þá staðreynd að fátæklingar séu bitrir: efnislegar skyldur Ríkis gagnvart þeim, ölmusa, o.s.frv. — punkturinn er sá að ef Ríkið á að viðhalda sér sem Hugtak Viljans þarf það að koma til móts við bitru fátæklingana (nokkuð sem Marx taldi að Ríkið gæti ekki gert til langs tíma litið og að því yrði nauðsynlega að koma til byltingar öreiganna). Hegel er því að lýsa stöðunni eins og hún er að hverju sinni og flæðunum og jafnvæginu sem sjá til þess að viðhalda stöðunni — hann er að framkvæma eðlisgreiningu (e. Immanent critique).

Ég geri mér grein fyrir því að þetta kunni að virðast pedantismi en að mínu mati er mjög mikilvægt að túlka Réttarspekina á réttan máta. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hvorki íhaldslestur né framsækinn lestur sé fullkomlega viðeigandi fyrir skilning á Réttarspekinni en eftir að ég las ritgerð heimspekingsins Robert Stern um einmitt það að lesa Hegel — nánar tiltekið hina frægu tvísetningu: „Hið raunsanna er rökskynsamlegt; hið rökskynsamlega er raunsatt,“ — á hlutlausan hátt hef ég tvíeflst í þessari skoðun minni. Greinin heitir Hegel's Doppelsatz: A Neutral Reading (sjá viðauka 𝜶 að neðan). 

Í henni greinir Stern orðræðu Hegels innan formála Réttarspekinnar á vandvirkan hátt og sýnir rækilega fram á að tvísetningin tákni alls ekki að hlutirnir sem eru séu skynsamlegir og/eða góðir (sem er hinn hefðbundni lestur íhaldsmanna á Hegel) né heldur að hið sanna eðli hlutanna fáist skilið og því svo náð gegnum forskriftir heimspekinnar (sem er hefðbundinn lestur framsækinna á Hegel, og sérstaklega fræg niðurstaða Marx að íhugun um Hegel lokinni: „The philosophers have only interpreted the world, in various ways; the point is to change it.“ sem hann skrifar í Tesum um Feuerbach) — heldur snúist tvísetningin og Réttarspekin yfir höfuð um það að reyna að ná fram nákvæmri og rökskynsamlegri lýsingu á því sem nú þegar stendur frammi fyrir heimspekinni. Ég mæli eindregið með lestri á grein Stern fyrir áhugasama.

Hannes hefði getað komist hjá þessum mistökum hefði hann lesið formála Hegels og séð að þar segi hann bókstaflega að „[verkefni heimspekinnar sé] að skilja það sem er,“ og að það sé fjarstæðukennt að búast við því að heimspekilegt kerfi geti komist handan síns tíma (sbr. Hin fleygu orð um að ugla Mínervu takist ekki á loft fyrr en rökkva tekur). Enn fremur segir hann: „Þetta verk [Réttarspekin, þ.e.], innihald hvers eru vísindi ríkisins, skal því ekki vera nokkuð annað en tilraun til þess að fanga og skilja ríkið sem eitthvað sem er í sjálfu sér rökskynsamlegt. Sem heimspekilegt verk verður það að vera eins fjarri því og hægt er að vera tilraun til þess að smíða ríkið eins og það ætti að vera.“ Að þessu öllu gefnu verður hverjum sem er ljóst að öll eftirfarandi umfjöllun Hannesar um svokallaðan „boðskap“ Hegels gagnvart fátækt stendur á brothættum brauðfótum. Ég læt þetta nægja hvað varðar röksemdafærslu mína fyrir því að Hegel skuli ekki lesa sem boðbera heldur sem lýsanda. Ég mun þó vísa til hennar síðar í grein þessari vegna þess að Hannes byggir síðari niðurstöður á þessari gölluðu túlkun.

Munurinn á firringu og falsmeðvitund

Höldum nú áfram að lesa textann hans Hannesar. Strax eftir að hann talar um fyrrnefndar áhyggjur minnist hann á að fátæklingarnir „yrðu firrtir,“ sem ég held að sé röng hugtakanotkun. Hannes er eflaust að hugsa fremur til Marx en Hegels, sem er að líkindum fremur viðeigandi fyrir þessa bók hans, en hugsum ekki nánar um það. Það sem Hegel á við í þeim hluta verksins sem Hannes fjallar um í þessum kafla er alls ekki firring. Hann leggur óneitanlega grunn að marxískri firringu ekki aðeins í kaflanum um meistara og þræl í Fyrirbærafræði andans heldur einnig í Réttarspekinni — nánar tiltekið §67 þar sem hann segir um abstrakt rétt: 

Single products of my particular physical and mental skill and of my power to act I can alienate to someone else and I can give him the use of my abilities for a restricted period, because, on the strength of this restriction, my abilities acquire an external relation to the totality and universality of my being. By alienating the whole of my time, as crystallized in my work, and everything I produced, I would be making into another’s property the substance of my being, my universal activity and actuality, my personality.
— G.W.F. Hegel

En það sem Hegel er að tala um í §240-246 er hins vegar hugtakið um falsmeðvitund sem ég hef fjallað um áður hér á Sýsifos — sjá nánar: „Berlínskt frelsi og falsmeðvitundir“. Firring, eins og Hegel snertir á hér að ofan (og Marx tekur svo upp eftir honum í pólitískum tilgangi þar sem hann gerir kapítalismann að firrandi kerfi, nokkuð sem Hegel gerir alls ekki) snýr að því að framselja eða firra sig allri verund sinni og ljá einhverjum öðrum eignarhald yfir henni. Hún snýr því fremur að Abstrakt Rétti og Eign fremur en hinu Borgaralega Samfélagi, þ.e., Hegel telur firringu aðeins eiga heima á sviði einstaklingsins eða hins tiltekna Vilja en skilur hana ekki sem eitthvað sem heil stétt getur upplifað. Falsmeðvitund, hins vegar, byggir á því að pöpullinn telji sig Rétthafa á einhverju sem hann á ekki tilkall til. Þannig getur pöplinum fundist vera brotið á sér, þegar raunin er sú að allir innan Ríkisins eru fyllilega innan Réttar síns (sjá viðbót við málsgrein §244). Hugtakinu „firring“ er hins vegar hvergi beitt í umfjöllun Hegels um hið Siðlega Líf. Ljóst er því að Hannes misskilur muninn á firringu og falsmeðvitund og/eða slær hugtökunum ranglega saman. 

Varðandi Hugmynd Ríkisins

En við höldum áfram — og höfundur segir okkur nú frá því að Hegel hafi lýst því í Réttarspeki sinni 1821 „hvernig ríkið hlyti að rísa upp úr hinum frjálsa markaði til að bæta úr fátækt og útskúfun,“ og vísar til heimildar (sjá viðauka 𝜷) aftast í verkinu hvað þessa fullyrðingu varðar. Það var eiginlega þessi fullyrðing og þær næstu sem gripu mig mig einna hvað mest þegar ég las textann hans Hannesar fyrst vegna þess að þetta er enn einn tiltölulega algengur misskilningur á því hvernig Réttarspekin er uppbyggð. Hún er fyrst og fremst mislestur þeirra sem ekki hafa lesið verkið frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu, enda auðvelt að fylla upp í eyðurnar um það hvernig Hegel, söguspekingurinn illræmdi, reyndi að sýna fram á sögulega nauðsyn þess sem gerðist. Þetta er þó einfaldlega rangt. Ríkið rís ekki nauðsynlega upp úr hinu Borgaralega Samfélagi í rökréttri tímaröð þar sem eitt kemur á undan og krefst þess næsta — því Borgaralegt Samfélag fengi ekki þrifist án Ríkis rétt eins og Ríki fengi ekki þrifist án Borgaralegs Samfélags. Allir þættir Hugtaksins eru nauðsynlega hangandi á og leiðandi hvor til annars í einni stórri hringavitleysu — heill hringur, fullkomin heild þar sem maður getur byrjað á hvaða punkti sem er og komist frá honum til hans aftur. Það má ekki gleyma því að Hegel er alls ekki að tala um sögulegt, efnislegt ríkisvald sem hefur bækistöðvar og mannlega einstaklinga að fulltrúum heldur óhlutstæða Hugmynd Ríkisins eins og það sprettur upp úr og fullkomnar Vilja eða Rétt. Það er því ranglega fullyrt hjá Hannesi þegar hann heldur eftirfarandi fram (á bls. 8):

Hin sögulega þróun var í þremur áföngum að sögn hans. Fyrst varð Fjölskyldan til. Þar voru tengsl manna lífræn eða bein. Þeir þekktu hver annan og mynduðu náttúrlega heild. En Hegel vissi, að menn geta ekki fullnægt öllum þörfum sínum innan vébanda fámenns ættbálks. Þeir hljóta að stunda verkaskiptingu og viðskipti. Þá varð til það, sem Hegel kallaði „hið borgaralega skipulag“, en svarar í stórum dráttum til frjáls markaðar. Þar rofnuðu hin lífrænu tengsl, heildin sundraðist niður í óteljandi einingar, en vélræn eða óbein tengsl tókust milli manna. Þar könnuðust einstaklingar hver við annan sem viðskiptavini og keppinauta.
— Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ég hef þar að auki dálitla nöldursathugasemd um orðalag Hannesar hér — því hann leggur það sem Hegel kallar Borgaralegt samfélag að jöfnu við hinn frjálsa markað. Þetta er auðvitað klassísk retórík frá hugmyndafræðingum hægrisins — að láta eins og það sem við köllum frjálsan markað sé hið sama og var uppi á tímum Hegels, eða að halda því fram á sambærilegan hátt að kapítalisminn sé ævarandi og hafi ávallt fylgt okkur eftir (þótt Hannes geri það ekki strangt til tekið hér — þetta eru aðeins dæmi). Ég meina ekki að Hegel hafi ekki lifað á tímum kapítalisma, það gerði hann og sannarlega, en kapítalisminn 1800 er ekki sá sami og kapítalisminn 2000, og það er slælegt að láta eins og það sé sami hluturinn. Hugtak Hegels um Borgaralegt samfélag inniheldur vissulega svið efnislegrar framleiðslu, skiptivörur og stofnanir sem vinna að framleiðslu og dreifingu þeirra en það inniheldur sömuleiðis löggjöf og dómstóla sem og opinberar stofnanir á borð við borgarstjórnir, lögreglu, slökkvilið, o.s.frv. — en vissulega er þægilegt að einfalda hugtök þar til hægt er að leggja þau að jöfnu við önnur hugtök sem maður er vanari að vinna með, eins og hugtakið um nýfrjálslyndan kapitalískan markað. Mér finnst þetta ansi óheiðarleg eða í það minnsta dálítið letileg vinnubrögð. En — áfram gakk!

Glundroði, samkenndarhvarf og trúnaðarbrestur

Því næst talar Hannes um að Hegel hafi talið verkaskiptingu kapítalismans slælega fyrir samfélagið í heild og krefðist (sögulegrar/rúmtímalegrar) upprisu Ríkisins (sem við vitum að er ekki raunin, en við skulum skoða textann betur þrátt fyrir það) til þess að sameina fólkið í siðferðilegu samlífi undir gæsku valdsins (bls. 8):

Hegel taldi, að samlíf manna í hinu borgaralega skipulagi væri vandkvæðum bundið. Verkaskiptingin hefði í för með sér einhæfingu. Menn misstu yfirsýn, þegar þeir einbeittu sér að einu verki. Tengsl rofnuðu við eðli þeirra og uppruna. Í hinu borgaralega skipulagi glötuðu menn fótfestu, byggju við öryggisleysi og óvissu, yrðu leiksoppar blindra markaðsafla, háðir duttlungum framboðs og eftirspurnar. Eftir því sem lífskjör bötnuðu, yrði fátækt þeirra, sem eftir sætu, tilfinnanlegri. Bilið milli ríkra og fátækra breikkaði, og „herskari umkomuleysingja“ kæmi til sögu og snerist gegn skipulaginu, af því að hann teldi skipulagið andsnúið sér. Þar væri þeim útskúfað. Þeir fyndu til þess, að þeir væru aftastir í röðinni og bilið milli þeirra og hinna, sem framar stæðu, jafnvel orðið að óyfirstíganlegri gjá. Við tæki glundroði, nauðsynleg samkennd hyrfi, og enginn byndi trúnað við neitt. Þá yrði ríkið til upp úr fjölskyldunni og hinu borgaralega skipulagi.
— Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ég veit ekki hvaðan Hannes hefur þessar fullyrðingar. Hann vísar aðeins til heimildar fyrir einni þeirra: „Eftir því sem lífskjör bötnuðu [...] skipulagið andsnúið sér,“ og hefur rétt fyrir sér í henni en ég finn ekki textalega undirstöðu fyrir hinum jafnvel eftir að hafa leitað lengi. Hins vegar fannst mér sem þessi orðræða, sem Hannes telur Hegel hafa haldið fram, minnti mig á nokkuð sem Adam Smith sagði í Auðlegð þjóðanna, V. bók, 1. kafla, 3. hluta, 2. grein

The man whose whole life is spent in performing a few simple operations, of which the effects are perhaps always the same, or very nearly the same, has no occasion to exert his understanding or to exercise his invention in finding out expedients for removing difficulties which never occur. He naturally loses, therefore, the habit of such exertion, and generally becomes as stupid and ignorant as it is possible for a human creature to become. The torpor of his mind renders him not only incapable of relishing or bearing a part in any rational conversation, but of conceiving any generous, noble, or tender sentiment, and consequently of forming any just judgement concerning many even of the ordinary duties of private life... But in every improved and civilized society this is the state into which the labouring poor, that is, the great body of the people, must necessarily fall, unless government takes some pains to prevent it.
— Adam Smith

Þetta hljómar miklu fremur eins og það sem Hannes er að tala um. Það eina sem ég hef fundið í Hegel um hreyfingu verkaskiptingar er í málsgrein §198 þar sem hann segir:

The universal and objective element in labour, on the other hand, lies in the abstracting process which effects the subdivision of needs and means and thereby eo ipso subdivides production and brings about the division of labour. By this division, the labour of the individual becomes less complex, and consequently his skill at his section of the job increases, like his output. At the same time, this abstraction of one man’s skill and means of production from another’s completes and makes necessary everywhere the dependence of men on one another and their reciprocal relation in the satisfaction of their other needs. Further, the abstraction of one man’s production from another’s makes labour more and more mechanical, until finally man is able to step aside and install machines in his place.
— G.W.F. Hegel

Ég myndi alls ekki segja að þetta sé hin verulega neikvæð umfjöllun um verkaskiptingu sem  Hannes heldur fram, heldur einfaldlega mjög nákvæm og skynsamleg lýsing á ákveðnu ferli tækniþróunar og verkaskiptingar.

Hvað varðar síðasta hluta málsgreinar Hannesar, „Þá yrði ríkið til upp úr fjölskyldunni og hinu borgaralega skipulagi,“ þá er beinlínis staður í texta Hegels (í viðbót við málsgrein §256, feitletrun mín eigin) þar sem hann neitar þessu:

„Since the state appears as a result in the advance of the philosophic concept through displaying itself as the true ground [of the earlier phases], that show of mediation is now cancelled and the state has become directly present before us. Actually, therefore, the state as such is not so much the result as the beginning. It is within the state that the family is first developed into civil society, and it is the Idea of the state itself which disrupts itself into these two moments.

Ég tel mig hér með hafa sýnt rækilega fram á það hvernig þessi málflutningur Hannesar er villandi og rangur, og á marga vegu. Dveljum ekki lengur við það, en höldum frekar áfram.

Enn um rangtúlkun boðberans

Hannes lætur sér alls ekki nægja að láta boðberatúlkun sína nema staðar við hinar fyrrnefndu áhyggjur Hegels af fátæku fólki. Á níundu blaðsíðu segir hann Hegel „[ekki hafa verið andvígan] kapítalisma eða frjálsum markaði, en taldi, að á honum væru alvarlegir gallar, sem ríkið yrði að bæta úr“. Hér má lesa „yrði“ sterkt og veikt, í þeim skilningi að Hannes meini sterkt að Hegel boði eða í þeim skilningi að Hannes meini veikt að Hegel telji nauðsynina felast í Hugtakinu. Mér finnst líklegra að hér eigi sterki skilningurinn við, en gæti þó haft rangt fyrir mér hvað það varðar. Á sömu blaðsíðu fullyrðir Hannes svo að Hegel hafi „[séð] fyrir velferðarríkið,“ og að greining hans minni helst á boðskap sænskra jafnaðarmanna (sjá viðauka 𝜸). Ég veit ekki hvaða grundvöll Hannes hefur fyrir fullyrðingum sem slíkum — sérstaklega þar sem Hegel var ekki að reyna að spá fyrir um neitt — en að venju er engin tilvísun í textann eða aðra heimild fyrir fullyrðingunni (þ.e., þeirri að Hegel hafi séð fyrir velferðarríkið — Hannes vitnar í heimild fyrir jafnaðarmannasamanburðinum, en nánar varðandi það í viðauka 𝜸).

Svo er það ekki nema blaðsíðu síðar (bls. 10) sem Hannes dæsir og útskýrir fyrir okkur, reynslu sögunnar ríkari, að boðskapur Hegels um það sem Ríkið „hefði átt“ að gera hafi einfaldlega reynst empirískt ósannur: með miklu yfirlæti útskýrir Hannes að Hegel hafi ofmetið mátt ríkisvaldsins til þess að skapa samkennd og að þótt hann sé „að vísu“ djúpsær hugsuður hafi hann bara ekki haft eina glóru um það hvernig ríkið starfar í raun og veru! Hannes segir að ríkið sé ekki málfundafélag göfuglyndra manna (og gefur þar í skyn fullkomlega fjarstæðukennda fullyrðingu: að Hegel hafi talið að ríkið ætti að vera málfundafélag), né heldur stofnun þar sem embættismenn sinna erindum sínum af samvisku (og gefur í skyn að Hegel hafi sagt að ríkið eigi að vera uppfullt af samviskusömum embættismönnum, engin heimild as per usual). Til þess að setja punktinn yfir i-ið útskýrir Hannes góðlátlega fyrir okkur að stundum fái fólk sem ekki verðskuldar fjárhagsaðstoð peninga frá velferðarríkinu, og að því hafi Hegel ljóslega rangt fyrir sér. 

Þetta er mjög mögulega vandræðalegasta útkúpling sem ég hef lengi lesið — ekki bara vegna þess að það er byggt á alvarlegum og djúpstæðum misskilningi á því sem Hegel var að halda fram í Réttarspekinni heldur aðallega vegna þess hve yfirlætislegur tónninn í textanum hljómar. „Nú vitum við miklu betur, vegna þess að reynslan hefur sýnt að x, y og z,“ — segir Hannes án þess að hafa einu sinni skilið hvað bókin sem hann þykist ætla að leiðrétta er að halda fram: Hugmynd um Ríki, ekki empiríska fyrirspá um hvað Ríkið mun eða ætti að vera. Ekki bætir úr skák að hér eru öll akademísk vinnubrögð okkur fullkomlega horfin sjónum — tilvísanir í texta Hegels til stuðnings fullyrðinga Hannesar eru engar (vegna þess að það er enginn heimildalegur grunnur fyrir þeim til þess að byrja með, að sjálfsögðu) og lesendum er gert að taka Hannes á orðinu.

Að lokum

Við getum ekki áfellst Hannes um of fyrir slælegan lestur — aðrir menn hafa gert sömu vandræðalegu grundvallarmistökin, oftast vegna þess að þeim láðist að setja inn vinnuna og lesturinn sem þörf er á vilji maður skilja hugarheim Hegels. Karl Popper gerir nákvæmlega sömu túlkunarmistök og Hannes í verkinu Opna samfélagið og óvinir þess — fyrir utan það að Popper gaf sér íhaldslesturinn (til þess að neita Hegel á þeim grundvelli) meðan Hannes virðist gefa sér framsækna lesturinn (fyrir sambærilegar ástæður). Popper ræðst á Hegel fyrir að vera forveri nasistanna og boðbera algjörs alræðisríkis meðan Hannes hæðir hann fyrir að halda að ríkisvaldið eigi að vera málfundafélag göfuglyndra manna. Báðir hugsuðir gera þau reginmistök að telja Hegel boðbera, hvergilandsmann sem er haldinn útópískri þrá-hyggju. Nánar um hryllilega meðferð Popper á hugmyndum Hegel má lesa hér í dágóðri svargrein Walter Kaufmann.

Þegar maður svo gerir sér grein fyrir sögulegu samhengi verksins verður manni um leið ljóst að bók Hannesar er skrifuð í flýti sem viðbragð við ríkisstjórnarskiptunum sem urðu í lok hrunsins. Hann nefnir jafnvel í heimildaskrá sinni að hann endurnýti efni úr gömlum ritgerðum sínum þegar hann skrifar fyrsta kafla verks síns um Hegel. Það er því ef til vill ekki að undra að um sé að ræða frekar slælega meðhöndlun á heimspekingnum þýska. Mér virðist sem Hannesi hafi mun meiri áhuga á að sýna Stefáni Ólafssyni, með hverjum hann hefur lengi eldað grátt silfur, í tvo heimana, en að greina fátækt út frá stjórnspekikenningum Hegels — ég er ekki frá því að oftar sé minnst á Stefán en hughyggjuspekinginn í bókinni. Það er og vel að Hannes skrifist á við Stefán og pólemík þeirra er oft mjög áhugaverð aflesturs — en ég bjóst við ítarlegri umfjöllun um Hegel hér sem og samanburði á stjórnspekikenningum hans og stjórnmálaskoðunum nútímamanna á Íslandi vegna þess að Hannes segist ætla að gera það í inngangsorðum bókarinnar. 

Vegna þess að ekkert nánar eða nýtt kemur fram í verkinu um kenningu Hegels (og ég veit það því ég fór í gegnum það allt til að vera fullviss um það) get ég sagt með mikilli og öruggri vissu að verkið sé algjörlega ómarktækt þegar kemur að G.W.F. Hegel — og að það sé ekki hægt að tala um að innihald þess sé innblásið af eða taki almennt mið af hinum raunverulegu skoðunum Hegels. Hvers vegna Hannes ákvað að beita honum fyrir sig veit ég ekki — mögulega bara fyrir hriffræðilegar ástæður, eða til þess að ljá umræðuefni sínu einhvern dulspekilegan blæ vegna þess hvernig Hegel er oft tekið.

Mér skilst að Hannes hafi skrifað um Hegel í doktorsritgerð sinni sem og í öðru verki sem heitir einfaldlega Stjórnmálaheimspeki (eins og hann tekur fram í heimildakafla bókar sinnar) en ég hef ekki aðgang að þessum skrifum hans. Það gæti verið áhugavert að lesa þessa texta ítarlega síðar og skrifa um þá en vegna aðstæðna er mér ófært að lesa þá eins og stendur. Titillinn er því ekki fullkominn, þar eð greinin er ekki tæmandi. Kannski verður til annar hluti seinna — það er aldrei að vita. 

Málverkið í haus síðunnar heitir Shipwreck og er eftir Claude Joseph Vernet, 1763.


Viðaukar

𝜶: Greinin kom út í 44. bindi Tímarits um sögu heimspekinnar (e. Journal of the History of Philosophy) apríl 2006 [doi: 10.1353/hph.2006.0032] og var gefin út á ný árið 2009 í bókinni Hegelian Metaphysics eftir sama höfund.

𝜷: Þess ber að geta að umrædd tilvitnun Hannesar í lok fullyrðingarinnar gefur upp §243 úr Réttarspekinni — málsgrein sem hljómar orðrétt svo:

„When civil society is in a state of unimpeded activity, it is engaged in expanding internally in population and industry. The amassing of wealth is intensified by generalising (a) the linkage of men by their needs, and (b) the methods of preparing and distributing the means to satisfy these needs, because it is from this double process of generalisation that the largest profits are derived. That is one side of the picture. The other side is the subdivision and restriction of particular jobs. This results in the dependence and distress of the class tied to work of that sort, and these again entail inability to feel and enjoy the broader freedoms and especially the intellectual benefits of civil society.“

Glöggir sjá að hér stendur ekki stakur stafur um það hvernig Ríkið rís nauðsynlega upp úr Borgaralegu Samfélagi. Hegel lýsir hér aðeins verkferlum við framleiðslu varnings. Heimildin er því marklaus. 

𝜸: Mér varð satt best að segja hálfbylt við þegar ég las þetta fyrst — en svo mundi ég að ég hafði heyrt frá öruggum heimildarmanni sem sat áfanga hjá Hannesi að hann hefði sagt eftirfarandi við nemendur sína: „Ríkið er syntesa Fjölskyldu og Markaðs […] og því sækja jafnaðarmenn mikið í Hegel.“ Þetta er stórskemmtileg athugasemd. Aldrei nokkru sinni hefi ég heyrt jafnaðarmann bera fyrir sig kenningar Hegels — og aldrei nokkru sinni mun ég heldur heyra það. Þvílík fjarstæða: Hegel, stjórnarskráreinræðissinninn, málpípa jafnaðarmanna! 

Ofan á það auðvitað hversu mikil abstraksjón og einföldun það er að kalla Ríkið „syntesu“ Fjölskyldu og „Markaðs“ — maður veltir því fyrir sér hvort það ætti ekki að vera e.k. jafningjamat þarna í Háskólanum sem tryggir að menn fari ekki með slíkar einfaldanir. Ég hef einnig komist yfir glærurnar sem hann notar í fyrirlestri sínum um Karl Marx — en þar er ein aumkunarverð glæra sem minnist á Hegel og lítur hún svona út. Þetta er nú eiginlega ekki boðlegt, verð ég að segja — fyrir ástæður sem ég þarf vonandi ekki að skýra mikið betur. Þetta er engin leið til þess að kenna fólki um hugmyndir Hegels.

Mér skilst á heimildum Hannesar í verkinu að túlkunina um sænsku jafnaðarmennina rekji hann til greinar Stefáns Snævarr: „Hegel og hégiljan,“ Frelsið, 3. hefti 8. árg. (1987), 142.–149. bls. — en sökum þess að ég er staddur í Kyoto (og hér er ekki margt um íslensk heimspekirit) hef ég ekki getað lesið greinina. Ég mun ef til vill gera það þegar ég sný aftur til Íslands og skrifa nánar um hana þá.

Heimildir

Allar tilvitnanir í Réttarspekina eru merktar með viðeigandi málsgreinum úr verkinu. Við lestur hef ég notast bæði við nýrri Houlgate-útgáfuna en einnig við þá gömlu. Í meginmáli beggja eru þýðingar eftir T.M. Knox en þeirri nýju hefur verið breytt örlítið og lagfært.

Outlines of the Philosophy of Right. G. W. F. Hegel. Translated by T. M. Knox and Edited by Stephen Houlgate. Oxford World's Classics. 10. July 2008.

First Published: by G Bell, London, 1896. Preface and Introduction with certain changes in terminology: from “Philosophy of Right”, by G W F Hegel 1820, translated by S W Dyde, 1896. Remainder: from “Hegel’s Philosophy of Right”, 1820, translated, Oxford University Press; First Published: by Clarendon Press 1952, Translated: with Notes by T. M. Knox 1942.

Allar tilvitnanir í Hannes (utan stakrar munnlegrar heimildar auk skjáskots af fyrirlestrarglærum hans í viðauka 𝜸) eru úr verkinu sem hlekkjað er á efst: Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Útgefandi: Bókafélagið, Reykjavík 2009. Hönnun kápu: Björn H. Jónsson. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja.

Stern, R. "Hegel's Doppelsatz : A Neutral Reading." Journal of the History of Philosophy, vol. 44 no. 2, 2006, pp. 235-266. Project MUSEdoi:10.1353/hph.2006.0032

The Hegel Myth and Its Method“ eftir Walter Kaufmann. 1959. Úr “From Shakespeare to Existentialism: Studies in Poetry, Religion, and Philosophy” eftir Walter Kaufmann. Beacon Press, Boston 1959. Bls. 88-119, Kafli 7: The Hegel Myth and Its Method. Skrifað upp af Kai Froeb.

Af heybrókum og hraksmánum

Af heybrókum og hraksmánum

Hið góða, hið (rök)rétta — siðfræði Immanuel Kant

Hið góða, hið (rök)rétta — siðfræði Immanuel Kant