Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Bókasafnið í Babýlon

Bókasafnið í Babýlon

Jorge Luis Borges skrifaði smásögu sem hefur verið brennd í huga mér frá því ég las hana. Hún heitir „Bókasafnið í Babýlon" og í henni líkir höfundur alheiminum við gífurstórt bókasafn. Borges hafði margt til síns máls. Til að mynda eru bókstafir frumeindir rétt eins og orð eru sameindir og með 26 mismunandi bókstöfum eða hundraðogtuttugu mismunandi frumefnum eru hér um bil óendanlegir möguleikar til nýsköpunar. 

Eins og flestir vita var Babýlon borg í Mesópótamíu til forna, sem er fræg fyrir hlutverk sitt í Biblíunni. Í Babýlon gerðust mennirnir svo djarfir að reyna að byggja turn alla leið upp til himnaríkis. Guði þóknaðist þessi áætlun helst til illa, svo að til þess að refsa mönnunum tvístraði hann þeim á óafturkræfan máta - með sköpun tungumálanna.

Það sem Guð óraði ekki fyrir var fegurðin sem jafnframt myndaðist með fæðingu hinna mörgu tungumála. Eftir Babýlonsturninn er mögulegt að finna orð fyrir snjó á allflestum tungumálum og hvert og eitt þeirra er frábrugðið flestum öðrum orðum yfir snjó í tungumálum annarsstaðar.

babylon-stands-against-god.jpg

Ein besta leiðin til þess að njóta orða og hugmynda annarra og fegurðinni sem í þeim býr er að lesa góða bók. Íslendingar eru oft sagðir mikil bókmenntaþjóð, og ég held að það sé satt. Við Íslendingar eigum þó löst einn - en hann er sá að við erum ósjaldan einfaldlega of ánægð með titlana okkar til þess að nenna að halda þeim við - sem gerir það að verkum að við sitjum sátt, brennimerkt bókmenntaþjóð - en lestur fer hratt dvínandi meðal meðlima yngri kynslóðanna.

Sjálfur er Sýsifos mikill lestrarhestur. Hann les ekki jafn mikið og hann vildi geta gert, helst sökum anna, en þegar hann hefur næði til þess getur hann sporðrennt bókunum á leslistanum sínum á methraða. Vegna þessa telur Sýsifos sig, þótt ungur sé að aldri og tiltölulega ólesinn enn, hafa þó nokkra þekkingu til að miðla til fólksins í kringum sig.

Og þess vegna þessi vefsíða. Vefur fyrir alla þá sem elska að lesa eða langar að byrja að lesa, eða vilja lesa eitthvað áhugavert um áhugaverðar bækur. Vefur fyrir þá sem eru nýbúnir að fletta síðustu blaðsíðunni og hungrar strax í meira.

Sýsifos er viðeigandi nafn fyrir vefsíðuna. Rétt eins og konungur Kórinþu gerir í Hades með hnullunginn sinn erum við öll þjáðir þrælar bókarinnar, blaðsíðu eftir blaðsíðu, skref fyrir skref, og það er mesta unun sem okkur kemur til hugar að leyfa grjótinu að rúlla aftur niður brekkuna og byrja upp á nýtt - eða loka bókinni og opna aðra.

Nei, líkingin er ekki fullkomin. Það er maðurinn ekki heldur. Njótið lestrarins!

Kveðjur,

Úlfar og deyjandi sólir

Úlfar og deyjandi sólir