Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Draumar og veruleiki

Draumar og veruleiki

Nú líður senn að forsetakosningum. Helst eru það fjórir frambjóðendur sem hafa verið sterkastir í skoðanakönnunum - þau Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir. Samtals eru þau með um 90% atkvæða en Guðni Th. er með flest atkvæði eða um 60% þeirra, plús/mínus fimm prósent eða svo. 

Ég er yfirlýstur stuðningsmaður Andra Snæs, þrátt fyrir að finnast eitthvað undarlegt við þessar kosningar, lýðræðið, forsetaembættið í heild sinni. Mér finnst einfaldlega ekki þörf á embættinu. Það er mín skoðun að hinn Besti Kostur, með hástöfum í byrjun orða, sé eftirfarandi: 

  1. Leggja niður embættið
  2. Brenna Bessastaði
  3. Hreinsa burt sviðnar rústirnar 
  4. Salta jörðina
  5. Byggja helvítis flugvöllinn þar sem forsetabústaðurinn stóð áður

Þetta er mín draumaniðurstaða. Ég veit þó að hún mun ekki raungerast - svo ég vitni í Ólaf nokkurn Kjaran - en maður má jú eiga sér drauma, þótt háleitir séu. Ekki satt?

Vegna þess hve ólíklegt ég tel að flugvellinum verði hlammað niður á Bessastaði og embættið gert að minningu um liðna tíma þá verð ég, þótt illskást sé, að velja mér frambjóðanda í þetta þversagnakennda og arkaíska embættisskrípi. Eins og ég skrifa hér að ofan þá hef ég fylkt mér bak við Andra Snæ Magnason, rithöfund og aktívista. Hann hefur framtíðarsýn, þótt klisjukennt kunni að hljóma í þessu kaldhæðna, óeinlæga samfélagi okkar, auk þess sem hann er réttsýnn, fyndinn og gífurlega klár. Hann er vinalegur og orðhnyttinn og ég held að hann gæti orðið fínn forseti, ágætur erindreki í útlöndum og gott andlit til þess að þjóna sem málsvari okkar Íslendinga. Þegar ég segi fínn forseti meina ég auðvitað „upp að því marki sem þetta embætti býður upp á sæmd og heiður í framkvæmdum og hugsjónum."

Mynd stolið af Birgi Þór Harðarsyni, Kjarnanum. Takk Birgir og fyrirgefðu stuldinn.

Mynd stolið af Birgi Þór Harðarsyni, Kjarnanum. Takk Birgir og fyrirgefðu stuldinn.

Ég mun ekki kjósa Guðna Th. Jóhannesson. Mér finnst retórík hans um að vera sameiningartákn eða sameiningarafl vera popúlismi sem á sér enga raunveruleikastoð. Það er ómögulegt að gegna svo valdamiklu embætti - hver sá sem vill andmæla því að embættið sé valdamikið ætti að líta á feril manns að nafni Ólafur Ragnar Grímsson og hugsa sig tvisvar um - án þess að taka afstöður sem mismuna einni skoðun um fram aðra. Hann segist vilja vera forseti allra, en þegar kemur að því að vera forseti annað hvort karlremba eða femínista, hvaða hlið mun hann velja sér? Það er líkt og hann skilji ekki að afstöðuleysi er afstaða rétt eins og hver önnur, og að afstöðuleysi er oftar en ekki versta afstaðan til að taka. Afstöðuleysi er að vera stikkfrír, ábyrgðarlaus. Eins og barn sem treystir sér ekki til að leggja heiður sinn og mannorð að veði og standa við skoðun sína. Afstöðuleysi í jafnréttismálum og kynþáttamismununarmálum, til að mynda, er afstaða með ríkjandi viðhorfi.

Skrif mín má ekki misskilja sem svo að ég hafi óbeit á Guðna sjálfum. Ég hef gott álit á Guðna Th. Jóhannessyni. Ég held að hann sé hinn ágætasti maður og með hinar fínustu skoðanir. Ég held að hann sé prýðilegur fræðimaður. Ég held að hann sé mjög hæfur til þess að túlka stjórnarskrá og líklega verður hann ágætisforseti þegar öllu er aflokið. Allt stefnir í það. Það sem ég gagnrýni er það sem mér finnst vera retórískur óheiðarleiki og/eða skilningsleysi á pólitísku eðli forsetaembættisins. Ég trúi því til dæmis ekki að Guðni Th. sé rasisti eða kvenhatari, en það er einmitt vegna þess sem ég skil ekki hvers vegna hann ætlar að veigra sér gegn því að taka afstöðu með sannfæringu sinni.

Ég hef rökrætt þennan málflutning eða afstöðu(leysi?) Guðna við nána stuðningsmenn hans og allir koma þeir að sömu niðurstöðu - hann sé auðvitað ekki „forseti allra,” eins og ég legg honum í munn, heldur sé afstöðuleysið og retóríkin um sameiningartáknið strategískt kosningabaráttumál, sérsniðið að þeim sem hafa fengið ógeð af því að leyfa mönnum eins og Ólafi Ragnari að sitja undir despótskum völdum, hagræðandi útkomum Alþingis eftir eigin hentisemi. Ég er svo sem í þeim hópi, en ég get ekki tekið mikið mark á manni sem býður sig fram undir fölskum formerkjum gagngert til þess að taka við völdum - þar sem hann mun svo ljóstra upp um raunverulegar skoðanir sínar í verki.

Svo ég er ekki enn viss hvort það er - er Guðni í raun og veru afstöðulaus eða er hann að þykjast vera afstöðulaus til þess að komast til valda? Því hvorugt er gott og bæði er vont. Ég sé ekki að það sé neitt annað í spilunum en þessir tveir kostir - en ef einhver vill útskýra þetta fyrir mér má senda mér skilaboð um hvers vegna ég hef rangt fyrir mér. Facebook eða á Twitter. Þið vitið hvað ég heiti.

Auðvitað eru það svo þau sem telja að kjósa þurfi „strategískt”. Það eru þau sem hafa svo mikla óbeit á Davíð Oddssyni að þau fylkja sér bak við Guðna í þeim tilgangi einum að klekkja á myrkrakonunginum sem „var valdur að hruninu,” og „gerði lýðræðið verra,” meðan á valdatíma hans stóð. Gott og blessað að fólk kjósi eins og því sýnist. Ég er bara hræddur um að það sé fólk sem annars kysi Andra Snæ sem kýs Guðna aðeins vegna þess að það óttast að Davíð Oddsson verði forseti lýðveldisins.

Svo er það sá sem næst því kemur að vera bókstaflegur fasisti í þessum kosningum: fyrrverandi trukkabílstjóri að nafni Sturla Jónsson. Hann segist munu „leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingarinnar,” auk þess sem hann hugsar sér að hann muni hafa vald til þess að skipa og reka ráðherra að vild, nái hann kjöri. Stjórnarfarið sem Sturla lýsir minnir einna helst á einvald, einhverja fasíska skrípamynd af því sem forsetinn hefur verið hingað til. Svolítið eins og ef Ólafur Ragnar hefði misst vitið á nasistasýru og væri enn að sækjast eftir endurkjöri.

Ég er farinn að halda að minni ákjósanlegustu niðurstöðu, þar sem Bessastaðir standa í ljósum logum og borgarskipulagstwitter getur byrjað að slefa yfir öllum möguleikunum sem Vatnsmýrin hefur upp á að bjóða, verði hraðast náð með því að tryggja að Sturla Jónsson trukkabílstjóri verði forseti lýðveldisins. Hann myndi sýna landsmönnum fyrir fullt og allt hve gjörsamlega glatað embættið er og ég sver, það yrði vopnuð bylting á Íslandi í fyrsta sinn síðan Jörundur hundadagakonungur var við lýði. Forsetaembættið gæti kannski, vonandi, horfið - fyrir fullt og allt.

Eins og sumir segja, þá tel ég að það gæti verið sniðugt fyrir Andra Snæ að bjóða sig fram á Alþingi, hvaðan hann getur haft raunveruleg stefnumótunaráhrif á íslenska ríkið og hátterni þess hvað varðar umhverfismál og fleira í þeim dúrum og mollum sem hann hefur ástríðu og baráttuanda til að beita sér fyrir. En þar til kemur í ljós hver verður forseti mun ég halda áfram að styðja hann, illskásta kostinn í heimi ekki-svo-endalausra möguleika.

Að lokum vil ég segja eitt. Við ættum að breiða út boðskapinn. Það þarf ekki að vera forseti á Íslandi. Hann er algjör óþarfi. Tímaskekkja. Forsetaembættið árið tvö þúsund og sextán er eins og klassíska teiknimyndasenan þar sem Tommi ætlar að skjóta Jenna með haglabyssu en skilur ekki að það er búið að troða hlaupin full - svo þau springa framan í hann þegar hann tekur í gikkinn. Hættum að taka í gikkinn. Leggjum þessa gömlu byssudruslu frá okkur. Hugsum um aðra hluti.

---

Veganismi, vélmenni og siðferði

Veganismi, vélmenni og siðferði

Varðandi „Færeyjar”

Varðandi „Færeyjar”