Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Stutt hugleiðing að háskólaönn lokinni

Stutt hugleiðing að háskólaönn lokinni

Tíminn líður svo hratt. Mér líður eins og fyrsti dagurinn minn í HÍ hafi verið í síðustu viku — en nokkrir mánuðir hafa liðið og ég hef lært mikið magn upplýsinga síðan þá, skrifað mikið, lesið mikið — og önnin er skyndilega búin. Ég nýt mín í botn — er eiginlega í essinu mínu. Það er frábært. Gæti vel hugsað mér að gera þetta til frambúðar; lesa, skrifa, tala, rökræða, hugsa. Heimspeki er augljóslega mín grein, greinin hvar ég mun að líkindum njóta mín hvað best. Þó eru nokkrir hlutir sem mér finnst uggvænlegir. Þeir eru ekki einskorðaðir við Háskóla Íslands eða háskólastigið yfir höfuð, heldur eiga þeir við menntakerfið í heild sinni — tilgang þess, eðli og ástand. Þær hafa legið mér á hjarta lengi vel en mér kom í hug að skrifa dálítið um þær eftir að hafa lesið hina ágætu Anti-Education: On The Future Of Our Educational Institutions eftir Friedrich Nietzsche. PDF til niðurhals má finna HÉR.

Í fyrsta lagi snúa áhyggjur mínar að grunnskólakennslu og stöðu bráðgerra barna innan opinbera skólakerfisins. Menntakerfið er smíðað í kringum lægsta greindarlega samnefnarann og öllu varðandi þyngdarstig og hraða náms er haldið í viðráðanlegu magni fyrir þá sem hægastir eru að kveikja. Þetta hefur orðið til þess að endalausu fjármagni er veitt í námsver sem meðhöndla börnin sem eru aðstoðar þurfi — þeir sem eru eftirá í náminu taka upp alla aukalega athygli kennaranna, sem eru þegar að vinna við undirlaunað og erfitt ábyrgðarstarf sem snýst um að móta huga komandi kynslóða! Það er langt í frá að vera smávægilegt starf.

Fyrr á árinu starfaði ég að verkefni ásamt góðum mönnum sem miðaði að því að veita bráðgerum börnum þá auknu aðstoð sem þau þörfnuðust til þess að raunverulega blómstra. Bráðger börn kafna í hægfara umhverfi sem er sniðið að þeim tornæmu. Við töldum jafnvel að þó nokkuð mörg börn í sérkennslu uppi í námsveri væru einmitt bráðger börn sem höfðu staðnað og gjörtapað áhuga sínum á námi og þekkingaröflun, sem er þeim sumum hverjum náttúruleg hvöt og skemmtun. Það varð ekki mikið úr verkefninu, þar eð við höfðum byggt það upp á sambærilegan hátt og lík fyrirtæki á undan okkur höfðu gert — í formi námskeiða fyrir börnin, sem foreldrarnir þyrftu að borga fyrir. Enginn vildi senda barnið sitt á námskeið hjá okkur, sem var ef til vill skiljanlegt — við verandi nýir á senunni og ekki endilega eins traustvekjandi og maður þyrfti að vera til að gera þetta vel. En hugsjónin lifir eftir.

Vandamálið er í grunninn kapitalíska lýðræðishugsjónin sem ríkir í hugsunarhætti þeirra sem skipuleggja grunnskólana. Allir eiga að fá sömu grunnmenntunina, svo það byrji allir á sama grundvelli þegar skyldu grunnskólanámi er lokið og einstaklingar annað hvort fara á vinnumarkaðinn eða byrja á næsta skólastigi. Ég hef engar sönnur fyrir því önnur en þessi einföldu rök, en ég tel að þetta hamli öllum nemendum innan kerfisins allverulega. Þeir sem eru náttúrulega hæfari til náms en aðrir eru skildir eftir, þeim sjálfum og samfélaginu til mikils taps. Þetta er líkt hugtakinu um spekileka — færir nemendur rétt svo klóra sig gegnum skólakerfið, taugungar samanbráðnir af leiðindum og afturhaldi, uppgefnir og þreyttir á formlegu námi það sem eftir er. Þetta er ekki svo mikið beinn spekileki eins og þetta er uppgufun áhuga og þekkingar sem annars myndi leiða þaðan af.

Í öðru lagi hef ég svo áhyggjur af stöðu mála innan Háskólans. Áhyggjurnar kunna að vera á sandi byggðar, en mér finnst samt þess vert að viðra þær hér. Vandamálið við Háskólann er að nemendur verða einfaldlega of sérhæfðir í faginu sem þau völdu sér til þess að þau geti fengið sér raunverulega og hagnýta menntun (til lífs, ekki aðeins til atvinnu). Þetta á svo sérstaklega við um prófessora og aðra stundakennara — allir eru uppteknir við að komast sem lengst í sinni deild að það verður mjög djúp sérhæfing. Nú vil ég meina að þessi sérhæfing sé almennt séð frekar góð, en yfir langtímann getur hún, að ég tel, orðið til þess að tækifæri glatist. Tækifæri sem yrðu til í háskólasamfélagi sem væri opnara, gjarnara á upplýsingaosmósu milli deilda, jafnvel í menntasamfélagi sem skyldaði mann til þess að taka ígildi tveggja gráða í mismunandi fögum til þess að fá eina gráðu.

Auðvitað er ég nýgræðingur innan háskólans og hef ekki gott yfirgrip eða skynbragð á stöðu mála þar eins og er en ég held að þetta sé raunverulegt vandamál. Vandamál sem hægt sé að leysa eða í það minnsta létta á með smávægilegum langtímatilraunum með áhugasömum nemendum. Heimspekin hefði til að mynda mjög gott af því að sitja námskeið í sálfræði, líffræði og eðlisfræði, jafnvel valda áfanga í læknisfræði. Sama gildir um allar þessar greinar — þær hefðu gott af því að læra smá heimspeki til hliðar.

Ef til vill á þetta betur við um sum fög en önnur — til að mynda er námsskrá læknisfræðinema mjög fjölbreytt. Þeir læra sálfræði, líffræði, anatómíu, efnisfræði og eitthvað um siðfræði! Áhrifin eru líka þau að nánast hver og einn nemandi útskrifast sem fjölhæfur, þenkjandi og skynsamur samfélagsþegn. Ég tel samlagningaráhrifin sem myndast milli faga spila stóran þátt í þessari niðurstöðu. Auðvitað verða slæm epli hér og þar úr læknastéttinni og ef til vill eru til betri dæmi sem ég er að missa af — en hugsunin varðar fyrst og fremst þennan námsfagasamtvinning sem ég tel að sé öllum til bóta.

Það er mikilvægt að standa vörð um menntun. Hugsa um hana, bæta skilyrðin fyrir henni. Hún er undirstaða góðs lífs. Menntun er félagsleg þegar hún streymir inn í einstaklinginn en verður einkaeign, og ósnertanleg einkaeign í þokkabót, um leið og hún verður hluti af persónu hvers og eins. Hún er því verðmæt í sjálfri sér og við ættum öll að reyna að hámarka eigin menntun.

Litið um öxl

Litið um öxl

Þversagnakenndar vangaveltur

Þversagnakenndar vangaveltur