Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Siðir að innan sem utan

Siðir að innan sem utan

Hugsum nú saman í örskamma stund um tvö hugtök: það sem við köllum siðferði og það sem við köllum siðleika. Hugtökin tvö eiga það oft til að blandast saman í einskonar heimspekilegt kássuhugtak sem heitir annað hvort siðferði eða siðleiki en merkir í raun einhverja blöndu hugtakanna tveggja. Þegar við tölum um siðferðisbrest ráðherra gætum við í raun átt við siðleikamistök, og þegar við tölum um að eitthvað sé ekki sérlega siðlegt gætum við meint hið ósiðferðilega í athöfn sem um ræðir. Þessi ruglingur er jafn algengur á íslensku og á ensku, svo það er ekki við tungumálið að sakast — maður sér fólk oft nota hugtökin „ethics“ og „morals“ eins og þau séu nokkurnveginn sami hluturinn. En hver er munurinn, ef einhver er? Þetta er áhugavert umræðuefni og mig langaði að rissa upp nokkrar hugmyndir sem hafa verið að bruggast í kollinum á mér undanfarið, bæði til að reyna að setja þær fram á rökfastan máta og til að fá viðbrögð og skoðanir annarra á málefninu. Dembum okkur þá beint í það að reyna að skilja hugtökin tvö að eins best við getum.

Hugsum okkur fyrst rækilega skilgreiningu á hugtakinu siðferði. Hvað er það sem við meinum þegar við tölum um siðferði? Siðferði er, eins og ég skil það, hin innri tilfinning okkar sem segir okkur að til séu mismunandi og ósamræmanlegar tegundir gjörða: góðar gjörðir og vondar gjörðir. Kannski hugsa sumir um samvisku þegar talað er um siðferði, og það fangar að einhverju leyti það sem ég meina, þó ekki alveg. Siðferðið er grundvallarstoð þess að við getum talað um hið rétta og hið ranga, hið réttláta og hið óréttláta, hið góða og hið illa. Eins og frægt er gerði Immanuel Kant tilraun til að gera siðferðið að rökföstu lögmáli í Grundvelli sínum að frumspeki siðlegrar breytni: „þetta er rétt vegna þess að það verður að vera það til þess að við lendum ekki í mótsögn við sjálf okkur“ — en höldum okkur við að reyna að skilgreina siðferðið. Siðferðið er, eins og að ofan segir, tilfinningin sem heimilar okkur tvíhyggjur hins góða og hins illa, jafnvel þótt tvíhyggjan bráðni stundum niður í eitt misgrátt róf og verði óskýrt eftir atvikum. Spurningin er þá sú hvað það er sem veldur þessari tilfinningu. Er hún eitthvað sem við fæðumst með eða er hún eitthvað sem er þrykkt í okkur samkvæmt hegðunarmynstrum annarra í samfélagi manna? Ég þykist ekki vita svarið við þessu enda er spurningin óprófanleg og mögulegt er að þræta sig út í horn í rökræðum hvora hliðina sem maður velur. Það kann því að vera að sannleikur leynist báðum megin og að við höfum bæði meðfæddan taugafræðilegan grundvöll fyrir siðferði sem og að við lærum hvað það sé að hegða sér rétt og rangt eftir atvikum út frá samfélagsreynslu okkar. Mitt mat er að siðferðið byggi að miklu leyti á hrifþáttum — að það velti á þessu sem ég kalla hrif, þ.e. reynslu okkar mannfólksins af lögbundnum heimi að innan sem og að utan og áttirnar sem við fjúkum í út frá þessum hrifum. Siðferðið er ekki sérstaklega rökrétt, eða það passar ekki mjög vel inn í ef-þá-rökskipurit. Það er ekkert altækt módel fyrir það hvernig maður á að hegða sér siðferðislega, enda bryti slíkt að vissu leyti á hugtakinu sjálfu — það er einhver þáttur þess sem er bundinn (hugsanlegum) krafti okkar sem einstaklinga til að taka ákvarðanir út frá okkar sannfæringu. Stundum finnst okkur eitthvað bara vera rétt eða rangt, og við getum ekki gert skynsamlega grein fyrir því hvers vegna. Siðferðið er abstrakt og huglægt, bundið innra vitsmuna-tilfinningalífi hvers og eins einstaklings og órætt af öðrum nema á mjög yfirborðskenndan máta. Siðferðið er óhlutlægt og erfitt að staðsetja nákvæmlega, það er síkvikt og breytilegt yfir tíma — en yfir lengri tíma.

Hugum nú að siðleikanum. Siðleiki á betur við um reglur samfélagsins að hverju sinni, hvort sem þær eru skrifaðar eða óskrifaðar. Þær eru hið ytra form tvítaksins um rétt og rangt: lög, mannasiðir, viðurkennd samskiptamynstur, o.s.frv. Siðleikinn á sér konkret tilvist í stofnunum samfélagsins sem og í reynsluheimshegðun hvers og eins einstaklings sem tilheyrir siðlegu samfélagi. Lögreglan er siðleg, stjórnmálamenn eru siðlegir, grunnskólakennarar eru siðlegir. Ég er siðlegur, þú ert siðlegur. Við getum jafnvel verið siðleg án þess að vera siðferðisleg — hvað eru sósíópatar annað en þeir sem ekki búa yfir siðferði en geta lesið og hegðað sér eftir siðleika? Siðleikinn er því í ákveðinni andstöðu við siðferðið að því leyti sem hann birtist okkur að utan — hann er fyrirbæri fremur en innri hugmynd. Vissulega sprettur hann upp úr innri hugmynd, eins og ég vil gjarnan reyna að sýna fram á í næstu málsgrein, en siðleikinn sjálfur á tilvist sína utan við okkur. Andstaðan er því þegar öllu er á botninn hvolft innantóm, því án siðferðis væri siðleikinn gjörsamlega gagnslaus og innihaldssnauður, og án siðleika væri siðferði ekkert annað en eitthvað sem við geymum innra með okkur og finnum mjög sterklega en sýnum aldrei neinum. Báðir möguleikar eru því í algjörri andstöðu við mannlegt samfélag eins og við þekkjum það. Siðleiki er því konkret birtingarmynd þróunarhreyfingar abstrakt siðferðis yfir tíma — og svo ég taki það fram er þessi þróun með öllu óteleólógísk, að ég tel. Óteleólógísk í þeim skilningi að það er ekkert æðra takmark sem við stefnum öll óafvitandi að eða lokatilgangur sem réttlætir allt þegar feita konan syngur. Þó mætti segja að samband siðferðis-siðleika sé teleólógískt, á þann hátt að ákvörðun mín um að fá mér brauð í morgunmat er teleólógísk og á þann hátt að ég kýs oft ómeðvitað það sem er mér fyrir bestu, eins og að ganga ekki yfir götuna þegar það er rautt ljós. Míkróteleólógíur, mannlegar teleólógíur, þrívíðar teleólógíur — en ekki kosmískar tvívíðar makróteleólógíur algjörs anda eða Guðs almáttugs.

Reynum svo að reka stuttan endahnút á skilgreiningarstússið okkar. Siðferðið er uppspretta hugmyndanna um rétt og rangt meðan siðleikinn er hugmyndirnar settar af stað í raunheiminum og prófaðar — samfélagið mætti því álíta einskonar tilraunastofu siðferðisins, stýrt „ef-þá“ umhverfi til þess að reyna að kynnast siðferðinu betur og læra af því hvað gæti betur eða verr farið. Siðferðið innra með okkur á því að vissu leyti margt sameiginlegt með lögmálum eðlisfræðinnar — við verðum að prófa okkur áfram í reynsluheiminum til þess að læra hluti. Það kann því að vera að Nietzsche hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann óskaði eðlisfræðinni langlífis, og að til þess að gerast betra fólk ættum við öll að verða eðlisfræðingar í einhverjum skilningi (Fröhliche Wissenschaft, §335). Rétt eins og eðlisfræðin kannar óskiljanleg hrif þyngdarlögmálsins kannar siðleikinn hin óútskýranlegu hrif siðferðisins — bæði eru vísindalegar aðferðir í átt að aukinni þekkingu á viðfanginu sem er fyrir hendi, þótt miskerfisbundnar séu. Óskiljanleg og óútskýranleg segi ég vegna þess að það er hartnær ómögulegt að skilja hvers vegna tveir hlutir með massa dragast að hvorum öðrum, en það er hægt að skilja hvað leiðir að því að það gerist, hvað gerist í kring þegar það gerist, hvað er að gerast á stórum og á litlum skala, og svo framvegis — og hið sama gildir um siðferðið. Það er ekki hægt að komast að því hvers vegna við teljum tvær mismunandi kategóríur hluta eiga sér tilvist í hinu rétta og hinu ranga, en það er hægt að skoða hvaða hlutir það eru sem ýta undir hugsunina „rétt“ og hjá hverjum að hverju sinni, og svo framvegis. Þ.e., siðfræði er fyrir siðleikanum það sem frumspeki er fyrir eðlisfræði.

Ég er ekki algjörlega viss um þessa túlkun mína enda er hún bara rissa — ég skrifaði hana upp frekar hratt og í þeim tilgangi að vonandi hefja einhverja umræðu eða vekja einhvern til stuttrar umhugsunar um þessi málefni. Endilega sendið mér línu eða hringið eða sendið fax eða skrifið mér bréf ef þið viljið tala um þetta við mig. Ég er svo sannarlega til í spjall um þetta. Takk fyrir lesturinn og góðar stundir.


Málverkið í haus heitir The Banks of the Thames at Eames og er eftir Charles-Francois Daubigny. Olía á panel, dagsetning óþekkt. 

Sýndir skákarinnar og manntölvur

Sýndir skákarinnar og manntölvur

Ég og ég, við báðir tveir — Sjálfs-Meðvitund í Fyrirbærafræði andans

Ég og ég, við báðir tveir — Sjálfs-Meðvitund í Fyrirbærafræði andans