Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Með-vitund / Án-vitund: fimm örsögur

Með-vitund / Án-vitund: fimm örsögur

Þór vaknaði í rúminu sínu og kannaðist ekki við sig. Herbergið var nánast autt. Myndirnar sem hann hafði hengt upp á veg voru horfnar. Bókahillurnar og fataskápurinn voru horfin. Rúmið var það eina sem eftir var af herberginu, auk þess sem myndavél hafði verið komið fyrir á veggnum á móti rúminu. Þór reisti sig við í rúminu og fann að hann væri klæddur í spítalaserk, ber að neðan. Það voru snúrur fastar í úlnliðnum á honum. Lítið rautt ljós kviknaði á myndavélinni þegar hann settist upp eins og það væri hreyfiskynjari í herberginu. 

„Farðu aftur að sofa,“ sagði dimm rödd.

„Hvað er í gangi?“ spurði Þór.

„Farðu aftur að sofa,“ endurtók röddin sig.

Þór lagðist aftur niður. Hann var dálítið skelkaður. Það var ljóst að eitthvað hafði gerst meðan hann svaf. Hann taldi réttast að hlýða röddinni um sinn. Hver sem gat brotist inn til hans í skjóli nætur og komið fyrir myndavélum og kallkerfi, sett í hann æðalegg og klætt hann í sjúkrahússlopp var augljóslega fær um meira. Hvernig hafði hann sofið í gegnum þetta allt? Útundan sér sá hann dropa falla í pokann sem tengdur var við úlnlið sinn. Hann fylgdist með dropunum falla taktfast þar til augnlokin þyngdust og hann sofnaði á ný.

* * *

Hausverkurinn var hvítur á litinn, skjannahvítur og blindandi. Mikki reyndi að loka augunum, en þau voru þegar lokuð. Hann skildi dauflega að þetta væri sársauki, ekki ljós. Bara dauflega. Hann opnaði augun og myrkur flæddi inn um sjáöldrin. Skynfærin tóku við sér eitt af öðru: bleyta, kuldi, harka, fnykur, skrjáf, blóðbragð. 

Meðvitundin draup inn um huga hans eins og sandkorn í stundaglasi. Hægt en örugglega. Mest fann hann af sársauka, og næstmest fann hann af kulda. Honum blæddi mjög. Heitt seytlandi blóðið yljaði honum örlítið. „F-, Fre-“ stamaði Mikki milli hrjúfra og skerandi andardrátta. 

„Freyr,“ hrökk loks upp úr honum. „FREYR,“ öskraði hann. Rödd hans var brostin. Sársaukinn skar upp brjóstkassann, lungun fylltust af hrauni. Hann þreifaði og fann. Beitt, kalt, breitt. Það var glerbrot fast í honum. Æ, æ, hugsaði Mikki. Þetta er ljóta helvítið.

Meðvitundin var að þverra. Mikki leit upp. Bíllinn hans var þarna. Öll ljósin voru slökkt nema eitt þeirra. Það geislaði af því fallegu ljósflæði. Mikki hefði viljað tappa ljósinu á flöskur. Sírenuhljóð barst úr fjarska. Hugrenningatengsl sóttu að honum. Lögregla, sjúkrabíll, slökkvilið. Doppler-hrif. Segulmagn. Freyr. Marlboro. Kirsuber.

Mikki hóstaði og hóstaði og hóstaði. Hann missti meðvitund.

* * *

Sólveig hrökk upp. Hún hafði sofnað í lestinni á leiðinni heim. Hún leit upp og sá að hún var komin langt framhjá stoppistöðinni sinni. Hún yrði hálftíma á leiðinni til baka. Hún dæsti og bölvaði sjálfri sér. Hún hafði alltaf átt gott með að sofna í farartækjum á hreyfingu, en þetta var óvenjulegt. Síðustu vikur hafði hún verið svo þreytt. Alltaf að sofna uppi í sófa, í bílnum með Mathias, í lestinni, í tímum. Það var eins og hún væri ekki að sofa nóg. Samt svaf hún yfirleitt átta klukkustundir hverja nótt. Hún var ekki í neinni óreglu.

Hún stóð upp. Lestin var að koma að næstu stoppistöð. Hún yrði að skipta um brautarpall og taka sömu lestina í áttina til baka. Sólveig leit í kringum sig og virti snögglega fyrir sér fólkið sem deildi með henni lestarvagni. Unglingar með andlitin í símunum sínum, gömul kona með handvagn undir innkaupin, miðaldra maður í brúnum jakka. Ekkert þeirra horfði á Sólveigu.

Lestin stansaði og Sólveig steig út. Stoppistöðin var undir berum himni. Það var skýjað. Sólveig var dofin. Henni fannst himininn vera eins og stór heili. Grár, flæðandi, tilbúinn að fella tár. Það vantaði bara eldingar til að herma eftir rafboðunum milli taugunga. Hún starði á skýin og týndi sér í leiðslukenndu meðvitundarleysi. Skyndilega mundi hún eftir lestinni og heimili sínu. Hún yrði að koma sér heim.

Það leið ekki langur tími þar til lestin kom hinum megin brautarpallsins. Sólveig steig inn og fékk sér sæti fyrir aftan ungan mann með stór heyrnartól. Hún lygndi aftur augunum og dottaði.

* * *

Hreinn fann ekkert nema gómsæta og hunangskennda hlýju fyrstu augnablikin. Hann naut þess að finna hlýjuna. Hún náði yfir allan líkamann og smitaði hugann. Hreinn brosti, fyrst að innan, svo að utan. Hann var hálfbráðnaður í eitt stórt bros, slepjukenndur og væminn.

Hendur hans fóru á flakk og léku létt um hlýjuna í örmum hans. Una var ennþá sofandi. Hann gældi við líkama hennar, finnandi hverja einustu sveigju undir lófum sínum. Mjaðmir upp í mitti, háls að kinnbeinum, læri til rassins. Hann naut þess að snerta líkama hennar. Snertingin var laus við áfergju. Hún var kærleiksrík, ástúðleg. Eins og maður myndi handleika ský.

Sálin hlaut vængi og Hreinn lokaði augunum á ný. Hann einbeitti sér að hlýjunni og fann að hann var ástfanginn. Hann elskaði hlýjuna, hann elskaði hugann, hann elskaði jörðina sem hýsti hana. Hugur hans hvarflaði af beinu brautinni og týndist í ranghölum. Hvar hafði hann aftur heyrt að ástin væri eigingjörn? Það gat ekki verið. Það var ómöguleiki. Hreinn hafði aldrei fundið jafn sterka tengingu við alheiminn og í gegnum ástina. Ástin var leiðin að öllu. 

Hreinn var að sofna aftur. Hann hugsaði um hvernig hlýja er á litinn rétt áður en hann sofnaði. Stuttu eftir það rumskaði Una. Hún fann heldur ekkert nema gómsæta og hunangskennda hlýju.

* * *

Boxhanskinn flaug beint í átt að Dodda og lenti á kjálka hans. Meðvitundin blikkaði út og svo inn. Hann var enn á fótum, enn dúandi. Svífandi eins og býfluga, stingandi eins og fiðrildi. Heilinn var ófær um að hugsa á tímum sem þessum. Annað hnefahögg frá Rússanum, annað blikk í meðvitundinni. Út, inn. Hendur Dodda hreyfðust upp og vörðu andlitið fyrir næsta höggi. Hann fékk sekúndubrot til að anda inn.

Doddi smeygði sér undir næsta hnefa og dældi út höggi sjálfur. Það lenti með lágum dynk á kinn mótstæðingsins. Hann miðaði öðrum undir hökuna og hann lenti. Tveir fóru í búk en sá þriðji klauf ekkert nema loftið. Fyrir utan þruskið í fótum þeirra, hnefadynkina og andardráttinn var þögn. Það var enginn í salnum.

Rússinn varði andlit sitt með hnefunum. Doddi skoppaði á tánum og reyndi að halda einbeitingunni. Hann yrði að sigra. Það var ekki boðlegt að halda áfram að lifa á ástvinum sínum. Hann yrði að grípa tækifærið og rota stóra og íturvaxna manninn sem stóð gegnt honum. Tíminn var að verða á þrotum.

Doddi hallaði sér fram og miðaði á andstæðing sinn. Hnefi út, högg, hnefi inn. Hnefi út, högg, hnefi inn. Skyndilega: meðvitundarblikk. Út og inn, eins og hurð hefði verið skellt í höfðinu. Hann hafði ekki séð höggið koma. Hnefarnir dundu á honum hver á fætur öðrum. Myrkrið var að leggjast yfir hann. Dimmt skilningsleysi. Barnslegt sakleysi. Allt í einu varð þyngdaraflið ótrúlega sterkt og Doddi var á gólfinu. Meðvitundin blikkaði út. Hún blikkaði ekki aftur inn.

* * *

Málverkið í haus er eftir Hasegawa Tōhaku (長谷川 等伯) og heitir Pine Forest.

Endalok tækninnar og eilíft líf

Endalok tækninnar og eilíft líf

Deus ex Machina ex Deus

Deus ex Machina ex Deus