Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Um kynjun orða og mannshugtakið

Um kynjun orða og mannshugtakið

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin á Rás 1 þann 18. apríl 2018. Málverkið í haus heitir The Tower of Babel og er eftir Pieter Bruegel the Elder frá árinu 1563. Að neðan má hlusta á hljóðupptöku af upplestri höfundar.


Íslenskt tungumál er fallegt. Það er hljómfagurt og hefur fallega hrynjandi. Eitt það besta sem ég geri er að lesa eða hlusta á vel smíðaðan íslenskan texta — og ég deili þessu áhugamáli með mörgum öðrum sem kunna skil á íslenskri tungu. Enn fremur finnst mér skemmtilegt og áhugavert að glöggva mig á því hvernig við beitum tilteknum orðum í daglegu máli — fátt er skemmtilegra en að kynnast orðsifjum og að skilja notkun okkar betur.

Almenn meðvitund um tungumálið skiptir máli, og sér í lagi þegar maður starfar við að skrifa og hugsa um heimspeki. Það varð nefnilega áherslubreyting innan heimspekinnar á 20. öldinni — hugsuðir fóru að einbeita sér að tungumálinu, byggingu þess og merkingunni sem við ljáum hlutunum í kringum okkur með notkun tungumálsins. Þetta hefur sannarlega smitað út frá sér, að mínu mati, vegna þess hve mikla athygli við veitum því í opinberri umræðu þessa dagana. Til að mynda lýsti Stúdentaráð Háskóla Íslands því yfir á dögunum að ráðið hefði tekið ákvörðun um að gera talsverðar breytingar á formlegum orðaforða sínum.

Formlegir titlar á við „formaður,“ „aðalmaður,“ „framsögumaður“ og „stjórnarmaður“ hafa þá vikið, og í staðinn koma titlar á við „forseti,“ „aðalfulltrúi,“ „flutningsaðili,“ og „stjórnarmeðlimur“. Í öllum fyrri orðunum var notast við viðskeytið „-maður“ en í uppfærðu orðunum hafa önnur orð á við „fulltrúi,“ „aðili,“ og „meðlimur“ komið í stað viðskeytisins „-maður“. Hugmynd Stúdentaráðs er þá sú að uppfærsla titlana sporni gegn „kynjaðri“ orðræðu. Það sem átt er við með kynjaðri orðræðu, segir Stúdentaráð, er orðanotkun sem gefur óþarflega í skyn eitt kyn fram yfir annað.

Þessi ákvörðun ráðsins leiddi til einhverrar umræðu um kynjuð orð og hvort það væri réttmæt fullyrðing að halda því fram um orðið eða viðskeytið „-maður“ að það vísaði sérstaklega til karlmanna. Andstæðingar breytingarinnar halda því nefnilega einatt fram að konur séu vissulega menn, rétt eins og karlar, og að breytingin sé fullkominn óþarfi — þegar við tölum um formann, segja andstæðingarnir, erum við bara að tala um menn almennt, karla jafnt sem konur, tegundina maður, ekki karlmenn.

Við höfum því tvær hliðar á þessari rökræðu. Önnur þeirra heldur því fram að orðið „maður“ hafi karlkyns blæ, og að notkun þess ýti undir óþarfa kynjun í orðræðu. Hin hliðin heldur því fram að orðið „maður“ vísi til dýrategundarinnar og því tilheyri bæði karlar og konur lýsingunni „maður“. Manni gæti virst þessi ágreiningur óleysanlegur — svo við skulum reyna að greina röksemdafærslu Stúdentaráðs sem og mótbárurnar við henni örlítið nánar og sjá hvort við getum ekki fundið sameiginlegan grundvöll og jafnvel lausn á rökræðunni.

Um hvað er Stúdentaráð eiginlega að tala þegar það vill losa okkur við orðið „maður“? Röksemdafærsla Stúdentaráðs snýst ekki um hið málfræðilega kyn orðanna sem um ræðir, því bæði „formaður“ og „forseti“ hafa málfræðilegt karlkyn. Það er því ekki málform orðanna heldur notkunarinnihald þeirra sem er gagnrýnt í breytingunni. Röksemdafærsla Stúdentaráðs veltur því mun fremur á því að orðið „maður“ hafi oft merkinguna „karlmaður“ en nánast aldrei merkinguna „kvenmaður“.

Eins og margir hafa oft bent á myndu fæstir benda á kvenmann sem stendur einhversstaðar og segja „maðurinn þarna“ — en ef þar stæði karlmaður í staðinn væri fæstum því nokkuð til fyrirstöðu að segja „maðurinn þarna“. Þegar talað er um „formann“ er því óhjákvæmilega kynjaður blær yfir hugtakinu, jafnvel þótt viðskeytið hafi skilninginn „mannkyn“ en ekki „karl“, vegna tvöfaldrar merkingar orðsins „maður“.

Spurningin veltur þá að lokum á því hver endanleg merking orðsins „maður“ er — hvort á orðið við karlkyns einstakling eða óhlutstætt hugtak „mannkyns“? Í fyrstu má spyrja sig hvort það gæti ekki vísað til beggja samstundis. Það finnst mér ósennilegt. Víðari skilningurinn felur nefnilega í sér karlkyn jafn sem kvenkyn, meðan þrengri skilningurinn felur aðeins í sér karlkyn. Orðið getur ekki merkt bæði karlkyn í einangrandi skilningi og karlkyn og kvenkyn í sameinandi skilningi samstundis. Það væri ruglandi, mótsagnarkennt og óþjált og það býður upp á vandkvæði eins og þau sem við erum að reyna að leysa úr í þessum pistli.

En hvor merkingin á þá að gilda — hvor á að bera sigur úr býtum? Að mínu mati hafa andstæðingar breytinganna lög að mæla þegar þeir halda því fram að merking mannshugtaksins sé dýrategundin „maður“ fremur en „karlmaður“ — en það er einmitt vegna þess að þau hafa rétt fyrir sér sem þau ættu að sammælast gagnrýni Stúdentaráðs. Það er mun ríkari sannleikur í þeirri fullyrðingu en í almennu orðanotkuninni, sem leggur „mann“ að jöfnu við „karlmann“. Orðið „maður“ eitt og sér getur nefnilega ekki réttilega verið tilvísun í karlmann, sé tilvísunin til tiltekins líkama karlmanns í sögulegum rúmtíma!

Hugsum okkur dæmi. Við erum saman úti að ganga, ég og þú, og við komum auga á tvær mannverur sitjandi á bekk. Önnur þeirra er karlkyns, hin er kvenkyns. Karlinn á bekknum er félagi þinn, og ég læt þig vita af því að félagi þinn sitji þarna á bekknum. Hvort væri réttara að nota til þess að vísa til karlmannsins í þessu tilfelli — orðið „karlinn“ eða orðið „maðurinn“? Noti ég orðið „maður“ er ég í reynd að beita orði sem vísar til beggja einstaklinganna sem sitja á bekknum, því bæði karlinn og konan eru „menn“ að því leyti sem þau tilheyra mannkyni. Hins vegar er aðeins annað þeirra „karl“. Tilvísunin „karlinn“ er því langtum nákvæmari í þessu tilfelli.

Staðreyndin er sú að allir karlmenn eru menn, en þvert á það gildir alveg jafn stranglega að ekki allir menn eru karlmenn. Notkun orðsins „maður“ sem samheiti við orðið „karlmaður“ en ekki samheiti orðsins „kvenmaður“ er því misbeiting hugtaksins „maður“ og í mótsögn við innihald þess. Hver sá sem segir „maðurinn þarna“ býður (ef við fylgjum mótbáru andstæðinga Stúdentaráðs til rökréttra endaloka sinna) ekki upp á neitt nema misskilning, vegna þess að þau misnota hugtakið — þ.e., einstak tilheyrandi dýrategundinni mannkyn — notandi hugtakið fremur til þess að merkja tiltekinn kynjaðan líkama, sem er ónákvæm, óhlutstæð og villandi lýsing.

Vandamálið er því ekki Stúdentaráðs, heldur hins almenna notanda sem notar hugtakið „maður“ yfir karlmenn en ekki kvenmenn. Markmiðið hlýtur því að vera róttæk endurhæfing orðsins „maður“ — endurskilgreining þess og vitundarvakning um réttmæta notkun orðsins. Spurningin, að mínu mati, er þá sú hvernig við viljum fara að því að koma þessari endurhæfingu á fót.

Að því leyti sem við viljum endurhæfa mannshugtakið virðist mér okkur standa þrír valkostir til boða. Í fyrsta lagi getum við skilgreint „maður“ kyrfilegar, þannig að það verði einfaldlega málfræðileg villa að nota „maður“ þegar maður meinar „karlmaður“. Í öðru lagi getum við reynt að gera virka tilraun til þess að breyta skilgreiningu orðsins „maður“ gegnum notkun, notandi það yfir konur í jafn ríkum mæli og við notum það yfir karlmenn. Í þriðja lagi getum við gefist upp á mannshugtakinu sem merkjandi „mannkynið“ og notað í staðinn „manneskja“ eða notast við staðbundnari hugtök eins og „aðili,“ „meðlimur“ eða álíka.

Að mínu persónulega mati er fyrsta hugmyndin langtum ákjósanlegust. Það eru nokkur rök fyrir því. Í fyrsta lagi finnst mér orðið „maður“ vera sértekning sem eigi aðeins að nota þegar rætt er um fólk í óhlutstæðum skilningi. Okkur ber því að fara tiltölulega sparlega með hugtakið. Annar möguleikinn, útvíkkun hugtaksins yfir kvenmenn, finnst mér þess vegna ekki sérlega aðlaðandi — bæði vegna þess að réttast væri að spara orðið „maður“ en einnig vegna þess að ég held að fólk ætti erfiðar með að venjast slíkri breytingu en hinni fyrrnefndu.

Þriðji valkosturinn, að nota „aðili,“ „meðlimur,“ „manneskja“ eða annað, (sem er að vissu leyti leiðin sem Stúdentaráð ákvað að fara) finnst mér ekki sérstaklega eftirsóknarverður, vegna þess að þegar kemur að fegurð finnst mér ekkert afleysingarorð jafnast á við orðið maður. Eins og ég hóf pistilinn á að ræða þá skiptir máli hvernig íslenskan okkar hljómar, hvernig hrynjandi hún hefur, hvaða orð við veljum okkur um fram önnur — en auðvitað eru þessar röksemdir einstaklingsbundnar og huglægar.

Margt á ég svo enn eftir að rannsaka, eins og orðanotkun sem varðar manngerðir sem eiga sér ekki enn sem komið er gott rými innan tungumálsins — manngerðir á við transfólk sem finnst kynbundin persónufornöfn á við „hann“ eða „hún“ ekki eiga við sig, sem og intersex-fólk, fólk sem passar almennt ekki svo glatt undir hugtökin „karl“ eða „kona“. Mannshugtakið, eins og ég hugsa mér það hér, myndi hins vegar eiga vitavel við transfólk og intersex fólk — svo þar höfum við enn ein rökin fyrir því að greina „manninn“ frá karlmanninum. Brýnt er að velta þessum þáttum fyrir sér, vegna þess að tungumálið er miðill sem við speglum sjálf okkur og raunveruleikann allan óhjákvæmilega í.

Kæri hlustandi/lesandi, vonandi veltirðu þessu fyrir þér næst þegar þú notar orðið „maður“ sem merkjandi karlmann — hvort sem þú svo ákveður að halda því áfram eða gerir tilraun til þess að breyta málnotkun þinni. Ég er ekki að setja neinar reglur hérna, enda er ég allsendis ófær um að gera slíkt, heldur vildi ég aðeins færa rök fyrir einni tiltekinni afstöðu gagnvart tungumálinu. Tungumálið er svo margbreytilegt og fallegt, og því meira sem við veltum því fyrir okkur og rýnum í það, því fegurra getur það orðið. Reynum því að velja orðin okkar vel og fara varlega með þau.

Epli, altök, eintök og tiltök

Epli, altök, eintök og tiltök

Póstmódernísk heimspeki og vestræn siðmenning

Póstmódernísk heimspeki og vestræn siðmenning