Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Hið góða, hið (rök)rétta — siðfræði Immanuel Kant

Hið góða, hið (rök)rétta — siðfræði Immanuel Kant

Eins og stendur vinn ég að umfjöllun minni á öðrum kafla Réttarspeki G.W.F. Hegels, þar sem ég fjalla um Siðferði eða Moralität. Inn í miðja greinina mundi ég hvað siðfræði Hegels á margt sameiginlegt með siðfræði Immanuel Kant eins og henni er lýst í Grundvelli að frumspeki siðlegrar breytni og öðrum verkum og gerði mér grein fyrir að það væri hér um bil ómögulegt að gera Hegel skilmerkilega grein án þess að lesendur hefðu að minnsta kosti yfirborðskenndan skilning á hugmyndum Kant um siðfræði. Til þess að leysa þennan vanda ákvað ég að skrifa dálítinn greinarstúf, einskonar yfirlit, þar sem ég rek kenningu Kant um hið algilda siðalögmál, hinn góða vilja, skylduhugtakið og fleira. Tilvísanir eru allar í íslenska þýðingu verksins eftir Guðmund Heiðar Frímannsson sem kom út árið 2003 á vegum Hins ízlenska bókmenntafélags, blaðsíðutöl og staðsetningarmerkingar á mis.

Efni og form, mannfræði og frumspeki

Snemma í verkinu gerir Kant greinarmun á formlegri og efnislegri þekkingu. Hann gerir þetta til þess að leggja upp útskýringu á því hvernig við eigum að komast að þekkingu á algildum frumspekilegum siðalögmálum. Áður en við förum í lögmálið og mismunandi afleiður þess o.s.fr.v. vil ég því skýra aðferðarfræðilega röksemdafærslu Kant um það hvar siðferðið er að finna og hvar ekki.

Formleg þekking, samkvæmt Kant, er þekking á hreinum hugtökum skynseminnar, algjörlega óháð reynslu. Hún snertir á hinum almennu lögmálum hugsunar almennt — getur verið analýtísk eða synthetísk, en er alltaf bundin við skilning okkar. Formleg heimspeki og rökfræði eru í reynd samheiti. Efnisleg þekking, aftur á móti, fjallar um hluti í reynsluheiminum, tiltekin viðföng skynjunar okkar og þau lögmál sem þau eru undirorpin. Tvö svið lögmála heyra undir efnislega þekkingu: náttúrulögmál og frelsislögmál. Eðlisfræði eru vísindi hins fyrra sviðs en siðspeki vísindi hins seinna.

Hrein formleg þekking rökfræðinnar hefur ekkert með reynslu að gera og útilokar hana því algjörlega. Hins vegar hafa eðlisfræði og siðspeki að því leyti sem þau eru efnisleg og að hluta til reynslubundin þekking einnig formleg a priori lögmál sér að grundvelli, og tiltekin vísindagrein vinnur að því að uppgötva þessi lögmál. Sú vísindagrein er frumspeki. Frumspeki getur verið frumspeki náttúrunnar, eins og Kant fjallar um í Gagnrýni hreinnar skynsemi þar sem kvíar skilningsins eru frumspekilegur grundvöllur allra náttúrulögmála og forsenda náttúruvísinda yfir höfuð, en frumspeki getur einnig verið frumspeki siðlegrar breytni. Siðspeki almennt skiptist því í tvennt. Reynsluhluta siðspeki kallar Kant verklega mannfræði, meðan formlegan hluta siðspekinnar kallar hann frumspeki siðlegrar breytni. 

Frumspeki siðlegrar breytni fjallar um það hvers skynsemin er megnug að hverju sinni óháð reynslunni, hvað það táknar að vera siðferðisvera og að breyta í samræmi við skynsamleg siðferðislögmál. Þessi frumspeki rannsakar skynsemislögmálin sem slík, hvernig þau koma til og á hvaða undirstöðum þau hvíla. Verkleg mannfræði snýr hins vegar að því að kanna hvernig lögmál efnisheimsins geta haft áhrif á mannlega breytni, að því leyti sem efnið getur haft áhrif á hugann, og svo framvegis. Verkleg mannfræði rannsakar því hluti eins og hvatir manna til tiltekinnar breytni fram yfir aðra þegar hvatirnar eru af öðrum toga en því sem Kant kallar hreinni skyldu — eins og hvað það er sem á sér stað í líkama okkar þegar okkur hungrar og við förum og borðum mat, eða þegar við stundum kynlíf vegna efnislegrar og náttúrulegrar kynhvatar okkar. 

Ef til vill væri best að skilgreina muninn þannig að frumspeki siðlegrar breytni snúi að því hvers vegna við ættum að gera eitthvað meðan verkleg mannfræði snerti fremur á því hvers vegna við almennt gerum eitthvað. Reginmunurinn liggur þá í því hvernig niðurstöður vísindin sækjast eftir að fá. Verkleg mannfræði leitast að því að skilgreina hvernig efnislegar hvatir geta haft áhrif á óefnislegan og skynsaman vilja, meðan frumspeki siðlegrar breytni miðar að því að greina og skilja hvernig skynsemin getur mótað og neytt viljann til þess að breyta siðferðilega.

Hvers vegna frumspeki? Er ómögulegt að finna siðalögmálið í reynslu?

„Hið hreina, sanna siðalögmál … er hvergi annars staðar að finna en í hreinni heimspeki; því verður hún [þ.e. frumspekin] að koma fyrst og án hennar getur engin siðfræði komið til,“ segir Kant á blaðsíðu 93. Að hans mati er siðalögmálið því algjörlega frumspekilegt, eins og við höfum snert lítillega á hér að ofan. Málið er að þegar Kant talar um hið hreina og sanna er hann að tala um það sem er a priori — þannig að þegar hann segir „hið hreina, sanna siðalögmál,“ þá er hann í rauninni að tala um skynsamlegt og rökfræðilegt forskilvitlegt lögmál alls siðferðis eins og það leggur sig. 

Frumspeki eru vísindin sem meðhöndla a priori lögmál eins og þau leggja sig, og því verða frumspekilegar rannsóknir að fara fram rökfræði- og frumspekilega. Þær verða að leggja grundvöllinn að hinni verklegu mannfræði, eins og titill verksins sem við lásum gefur til kynna — vegna þess að reynsla getur aldrei fært okkur gulltryggð og örugg lögmál siðferðis, fremur en neins annars. Kant er mikið fyrir það að bera saman hið vísindalega, sem hann teiknar upp sem „sannprófanlegt“ á nánast Popperískan hátt, og svo hið frumspeki- rökfræðilega, sem er nauðsynlegt — og hér telur hann að allt siðferði verði að grundallast á algildu og rökfræðilega nauðsynlegu lögmáli um skilyrðislaust skylduboð góðs vilja. 

Verkleg mannfræði, sem hefur það hlutverk að rannsaka hvernig náttúrulögmálin geta skert eða hrifið skynsamlegan vilja okkar og hvatt okkur til þess að breyta gegn honum, vera ófrjáls, verður að byggja á grundvellinum til þess að hafa einhvern byrjunarpunkt — eitthvað til þess að meta það hvort þessi náttúrulögmál séu yfir höfuð að skerða eitthvað forskilvitlegt frelsi skynsamlegs vilja.

Kant færir einnig rök fyrir því að ómögulegt sé að leiða hið hreina og sanna siðalögmál úr reynslu, en þau eru stuttlega svohljóðandi [athugasemdir undirritaðs í hornklofum]:

  1. Ef við hyggjum að reynslu okkar af mannlegri breytni er ekki hægt að nefna nein tvímælalaus dæmi um breytni af hreinni skyldu — ekkert sem við getum horft á og sagt með fullri vissu að sé raunverulega og á ótvíræðan (!) hátt gott. (406, bls. 117) [Kant vill leggja fram kenningu um rökfræðilega nauðsynlegt siðferði, og reynslan getur ekki fært okkur slíka kenningu. Sbr. það sem hann segir um að breyta í samræmi við og af skyldu — þá verður breytni að vera af skyldu vegna skyldu til þess að teljast yfir höfuð siðleg fyrir honum.]

    Undirskilja 1α:  Það er ekki hægt að nefna nein tvímælalaus dæmi um breytni sem var ótvírætt skyldunnar vegna eða ótvírætt af siðferðilegum toga vegna þess að við erum svo oft ómeðvituð um okkar innri driffjaðrir sem hafa áhrif á hvatir okkar til breytni. Vegna þessa er ómögulegt að greina reglur siðferðisins út frá reynslu okkar úr raunheiminum. (407, bls. 118)

    Undirskilja 1β: Markmið frumspekilegs grundvallar siðlegrar breytni er að finna öruggan og ótvíræðan byrjunarpunkt alls þess sem kalla mætti siðlegt. [Sbr. 389 bls. 92 í Formála þar sem Kant segir: „Hver og einn hlýtur að fallast á að lögmál, eigi það að vera siðlegt, þ.e. Grundvöllur skuldbindingar, verður að kveða á um algera nauðsyn; að boðorðið ‘þú skalt ekki ljúga’ á ekki einungis við um menn rétt eins og aðrar skynsemisverur þyrftu ekki að skeyta um það, [...]“ — hann hreinlega gefur sér í byrjun að þetta sé raunin. Þetta er upphafsforsenda Kant og því verður hún ekki rökstudd nánar. (Það má þó ef til vill útskýra forsenduna nánar með því að segja að eigi siðferði ekki bara að vera ágiskunarleikur, hugsar Kant, verði það að innihalda nauðsynlegan sannleika. Hann vill bjarga siðferðinu frá efahyggjunni.)]
     
  2. Af þessu leiðir að siðferðislögmálið, ef lögmál á með sanni að heita, verður að koma a priori úr iðjum skynseminnar, ósnortið af reynsluheiminum og viðeigandi fyrir allar skynsemisverur á öllum stundum í ferli alheimsins. (411, bls. 125) [Þetta leiðir af  a) og undirskiljum, og gerir út af við möguleikann á því að sannkölluð lögmál eða skyldur verði leiddar af reynsluheiminum. Hann er óræður oft á tíðum og tilfallandi svo að ómögulegt er að greina með vissu hvernig hrein lögmál geta átt við um skylduga breytni skynsemisvera.]

Nú hefur frumspekilegt eðli hins hreina og sanna siðalögmáls og forsendur þess í formlegri siðspeki verið reifað nægilega vel og ég tel tíma til kominn að halda áfram og fjalla um fleiri hugtök. Tökum því skref fram á við og tölum aðeins um hinn góða vilja eins og Kant leggur hann upp.

Hinn góði vilji og skylda okkar

Góður vilji er það sem Kant kallar „hið eina í heiminum sem telja má gott fyrirvaralaust,“ og er kjarni kenningar hans um siðfræði. Hann lýsir góðleika góðs vilja á þann hátt að hann sé hvorki góður vegna þess hvað leiði af gjörðum hans né heldur vegna þess hve vel honum tekst að ná settu marki heldur er hann aðeins góður að því leyti sem hann vill hið góða. Jafnvel þótt hann sé einskis megnugur, segir Kant, vegna óvildar örlaga eða naumrar heimanfylgju (upphafsstöðu). 

Góður vilji er ekki gagnlegur heldur er líklegra að hann sé gagnslaus með tilliti til þátta eins og hamingju og lífsgleði. Kant segir að ef hamingja og lífsgleði væru okkar æðstu markmið sem lífverur værum við betur sett með sterkar eðlishvatir og minni skynsemi. Skynsemin er okkur þó meðfædd og hefur verkleg áhrif á viljann, og þar eð Kant telur alla náttúrulega úthlutaða eiginleika gegna einhverjum rök-teleólógískum tilgangi hlýtur skynsemin því að hafa það hlutverk að kalla fram vilja sem er góður í sjálfu sér. Röksemdafærslan er tiltölulega einföld þegar við brjótum hana niður í hluta sína:

  1. Skynsemin getur þekkt það sem er gott.
  2. Hið góða er eftirsóknarvert í sjálfu sér, skilgreiningu samkvæmt.
  3. Skynsemin hefur verkleg áhrif á viljann.
  4. Niðurstaða: Skynsemin á með verklegum áhrifum sínum að stýra viljanum á þann hátt að hann verði góður samkvæmt leiðarvísi sinnar eigin þekkingar á hinu góða.

Kant hefur fyrsta hluta verksins á umræðu um góðan vilja vegna þess að hann er grundvallarundirstaða alls siðferðis. Það er augljóst að byrja á byrjuninni í heimspekilegri umræðu og möguleikinn á grunneiningu hins góða, eða góður vilji, er forsenda alls þess sem á eftir kemur. Eins og hann segir (397, bls. 103), þá er hugtakið um góðan vilja það sem skipar æðsta sess þegar heildargildi breytni okkar er metið og er forsenda alls annars.

Kant færir sig svo frá hugtakinu um hinn góða vilja og talar um hugtakið skyldu. Hugtökin tvö eru þó nátengd, Skylduhugtakið felur í sér hugtakið um góðan vilja, segir Kant, og þótt það geti fært vissar einstaklingsbundnar takmarkanir á hinn góða vilja í einhverjum tilfellum verður það aðeins til þess að hann ljómi enn skærra vegna þessa hindrana. Hugtakið um skyldu leiðir af röksemdafærslunni um góðan vilja, frekar náttúrulega. Niðurstaða röksemdafærslunnar ofar í umfjöllun minni segir að „Skynsemin [eigi] með verklegum áhrifum sínum að stýra viljanum á þann hátt að hann verði góður samkvæmt leiðarvísi sinnar eigin þekkingar á hinu góða.“ 

Lykillinn að því af hverju þessi niðurstaða er í raun skylduhugtakið sjálft er annað orð niðurstöðunnar: eigi. Skynsemin, þenkjandi hluti meðvitundarinnar, á að breyta viljanum til hins betra eða góða — hún verður að gera það til þess að geta talist siðleg yfir höfuð. Kant tekur svo dæmi á næstu blaðsíðu: skylduna til þess að varðveita líf sitt. 

Sá sem varðveitir líf sitt vegna þess að honum finnst svo gott að vera lifandi eða vegna þess að hann vill ekki vera talinn kjarklaus eftir sjálfsvíg sitt kann að varðveita líf sitt út  lífsreglu vegna en hann gerir það ekki á siðlegan hátt ef hann gerir það ekki skyldunnar vegna — eða ef hann gerir það ekki vegna þess að skynsemin neyðir hann til þess að komast að þeirri röklegu niðurstöðu að það sé okkur skylda að varðveita líf okkar. Þannig að, ef til eru ákveðin siðferðileg lögmál — sem Kant sýnir fram á síðar í verkinu að séu — þá er rökleg skylda skynseminnar sú að beygja viljann undir þessi lögmál siðferðisins. Hið góða er því hið rétta og öfugt.

Lífsregla er huglæg regla viljans — eitthvað sem maður einsetur sér. Þegar lífsreglur verða hlutlægar, þ.e. gildandi fyrir allar skynsemisverur sem hafa verklegt vald yfir vilja sínum, þá kallast þær lögmál. Lífsreglur geta verið í samræmi við eða þvert á hneigðir, og sama gildir um skylduboðið — þ.e., þær geta verið í samræmi við skylduna eða ekki. (Neðanmálsgrein bls. 110) Það er ekki mikið sem er ljóslega hægt að segja um lífsreglur, nema að þær geti verið huglægar eða hlutlægar, og að Kant telji þær eiga að vera í samræmi við skylduboðið eða lögmálið þvert ofan í allar líkamlegar og óskynsamlegar hneigðir.

Í stuttu máli eru meginatriði skyldunnar eftirfarandi:

  1. Til þess að athöfn hafi siðferðilegt gildi verður hún að vera framkvæmd af skyldu en ekki aðeins í samræmi við skyldu — þ.e., skylduhugtakið sem slíkt er nauðsynlegur þáttur í siðlegri hegðun okkar, og án þess erum við alls ekki siðleg.
     
  2. Athöfn sem er unnin af skyldu sækir siðferðisgildi sitt ekki í það markmið sem athöfnin á að ná heldur er það að finna í lífsreglunni sem er fylgt þegar athöfn er ákveðin — þ.e. siðferðisgildið ræðst af því hvort viljinn sem ákvað athöfnina hafi verið góður eður ei.
     
  3. Skylda er nauðsyn þess sem mér ber að gera af virðingu fyrir lögmálinu — lögmálið hér eigandi við um hinn góða vilja sem slíkan og verklegt vald skynseminnar yfir honum til þess að veita honum í átt að hinu góða í sjálfu sér.

Mér finnst dálítið erfitt að skynja hvað hann á við með þessari virðingu eins og hann setur hana fram en ég ætla að gera tilraun til að skilja hana á minn eigin hátt:

Það að bera virðingu fyrir lögmáli þýðir í raun bara að viðurkenna lögmæti lögmálsins og hlýða því. Það þýðir að sjá að grundvöllur lögmálsins er óumflýjanlegur, apódiktískur — og að við séum bundin sama grundvelli, skynseminni sjálfri. Þessi virðingartilfinning tvinnast eflaust saman við það sem Kant kallar hið háleita, þ.e., það fylgir því einhver óttablandin virðing að álíta mikilfenglega kletti í náttúrunni á sambærilegan hátt og við virðum siðferðislögmálið: við viðurkennum samtímis að það sé eitthvað óyfirstíganlega stórt sem gnæfir yfir okkur, hvort sem er klettur eða siðferðislögmál, (óttinn kemur héðan) en jafnframt skiljum við að við sjálf getum lagt okkar eigin línur, að við séum okkar eigin lögmál — að við séum plastísk skynsemi, skilningurinn holdi klæddur. 

Þessi virðing er ekki eins og hvöt eða löngun — ef við horfum fram hjá því að orðin þrjú hafa augljóslega alfarið mismunandi merkingar — vegna þess að virðing snýst um vald eins og það birtist persónu sem getur hafnað því eða viðurkennt það (virðing snýst því að einhverju leyti í kjarnann um dóma), meðan hvatir snúast um þrár, sálfræðilegt ástand þess að vilja eitthvað tiltekið til þess að fullnægja þránni. Viljinn er miðill í seinna tilfellinu, en er meginviðfangið í því fyrra. Viljinn, sem dæmir, er það sem játar eða neitar valdi lögmálsins, meðan þráin beitir viljanum aðeins sem verkfæri til þess að svala einhverri tiltekinni löngun. Því er talsverður munur á þessum tveimur hugtökum.

Skylda okkar er því rökleg skylda — við eigum að gera hið góða vegna þess að annars værum við ekki skynsemisverur. Ég er að fara smá fram úr mér með dæminu um að varðveita líf sitt, en nú mun ég fjalla um það hvað hið algilda siðalögmál er nákvæmlega og hvers vegna, t.d., okkur ber skylda siðalögmálsins vegna til þess að varðveita líf okkar ásamt fleiri lögmálum eins og að stela ekki, ljúga ekki, drepa ekki.

Varðandi greinarmuninn á ráðum, reglum og boðum og fullkomnum og ófullkomnum siðferðisverum

Kant gerir svo einnig mikilvægan greinarmun á færnisreglum, hyggindaráðum og skylduboðum. Til þess að skilja muninn á reglum, ráðum og boðum er nauðsynlegt að skilja hvernig Kant skilur markmið og aðferðir viljans til að ná þeim. Í fyrsta lagi segir hann (415 bls. 131), að allt sem sé einungis mögulegt kröftum skynsemisveru sé hægt að hugsa sér sem markmið einhvers vilja. Hegðunarreglur eru því í raun óendanlega margar en Kant telur sig geta skipt þeim niður í þrjá flokka: færnisreglur, hyggindaráð og skylduboð. Í hverju og einu tilfelli eiga reglurnar, ráðin og boðin það sameiginlegt að hafa vilja sem stendur frammi fyrir einhverju tilteknu markmiði og aðferðir til að ná þessu markmiði. Það er svo viljans að kjósa um hvort markmiðinu skuli náð með þessari tilteknu aðferð eður ei. Til að mynda getum við ímyndað okkur vilja minn, sem langar afskaplega mikið að eignast nýjustu skáldsögu eftirlætis rithöfundar míns. Undir svið færnisregla falla þá allar mögulegar aðferðir til þess að ná markmiði mínu, sem er að eignast skáldsöguna, þar með talið að vinna sér inn peninga og skipta þeim út fyrir skáldsöguna á frjálsum markaði, ginna einhvern sem ég þekki til þess að gefa mér hana í afmælisgjöf, ræna bókinni, osfrv. 

Einnig eru boðin, reglurnar og ráðin annað hvort áreiðanlegar eða óáreiðanlegar og annað hvort skilorðsbundnar eða skilyrðislausar. Reglur og ráð, sem eru skilorðsbundin, segja tiltekna athöfn nauðsynlega sem tæki til þess að ná einhverju öðru sem maður vill eða er mögulegt að maður vilji, meðan skylduboð sem eru skilyrðislaus segja athöfn nauðsynlega í sjálfri sér án tillits til annars markmiðs eða annarrar aðstæðu. Þetta má einnig orða á þann hátt að sé athöfnin sem liggur fyrir einungis góð sem tæki til einhvers annars sé skylduboðið skilyrðisbundið, en ef athöfnin er góð og rétt í sjálfri sér og því góð fyrir hvern og einn skynsaman og skyldubundinn vilja er skylduboðið skilyrðislaust. Munurinn er því í stuttu máli sá að hið skilyrðisbundna er háð því að aðstæður séu athöfninni viðeigandi í átt að markmiðinu meðan hið skilyrðislausa spyr alls ekki um aðstæður heldur boðar altækt lögmál óháð því sem á sér stað í reynsluheiminum.

  1. Í fyrsta lagi höfum við hinar svokölluðu færnisreglur. Þær eru eins víðtækar og hugsast getur: þær eiga við um öll hugsanleg markmið og allar hugsanlegar leiðir til þess að ná þeim. Athugið að færnisreglur eru einfaldlega form viljans til þess að ná markmiðum sínum almennt — og hvaða innihald sem manni er fært getur komið inn í formið og fyllt það út. Markmið færnisregla eru því algjörlega einstaklingsbundin sem og aðferðirnar sem maður fer til þess að ná þeim. Ekki er hægt að alhæfa á nokkurn hátt um þetta svið athafna vegna þess hve víðtækt það er, til að mynda er ekki hægt að setja þá alhæfanlegu reglu að a) alla langi í blátt Boxy strokleður og b) verði að vinna þrjár klukkustundir á laugardegi til þess að geta keypt sér það. Færnisreglur eru því óáreiðanlegar og skilorðsbundnar.
     
  2. Í öðru lagi talar Kant um hyggindaráð. Hyggindaráð eru líkt og færnisreglur einstaklingsbundin að því leyti hvaða aðferðir standa manni til boða, en munurinn á hyggindaráðum og færnisreglum er í grunninn sá að markmið hyggindaráða er alhæfanlegt fyrir allar skynsemisverur: hamingjan sjálf er að veði hér. Hyggindaráð snúa að því að uppfylla það sem er öllum lífverum sameiginlegt — að verða hamingjusöm (eða m.ö.o. að ná markmiðunum sem fylla líf manns merkingu). Kant segir að við getum gengið að því vísu að allar skynsemisverur hafi hamingjuna að markmiði af hreinni náttúrulegri nauðsyn. Það er því hægt að fullyrða með vissu að hver og ein skynsemisvera hafi hamingjuna að markmiði en ekki er hægt að fullyrða um nákvæmlega hvernig veran eigi að ná markmiði sínu. Hyggindaráð eru áreiðanleg og skilorðsbundin.
     
  3. Í þriðja og mikilvægasta lagi höfum við svo skylduboðin, eða það sem Kant segir að eigi að vega þyngst í ákvörðunum okkar. Skylduboð eru, líkt og talað hefur verið um að ofan, þau boð sem a) eru alhæfanleg fyrir allar skynsemisverur hvað markmið varðar (hið góða, þ.e., óháð því að hvaða öðrum afleiðingum það gæti leitt til) og b) alhæfanleg fyrir allar skynsemisverur hvað aðferðir að þessu markmiði varðar (þú átt alltaf að segja satt, vera heiðarlegur, varðveita líf annarra, osfrv., þar eð annars myndi athöfnin alltaf brjóta í bága við markmiðið). Skylduboð eru áreiðanleg og skilyrðislaus.

Annað sem Kant talar um á um það bil sama svæði verksins er munurinn á fullkomnum og ófullkomnum siðferðisverum. Kant byrjar á því að tala hér um hvernig hlutir í náttúrunni fara eftir lögmálum en að það eina sem getur farið eftir Hugmyndum sínum um lögmál sé skynsemisvera — þ.e., vera sem setur sér sínar eigin reglur og framkvæmir samkvæmt vilja sínum. Þar eð við mannfólkið erum ekki hreinar skynsemisverur, að því leyti að við erum bæði til í skynheiminum og í skilningsheiminum (phenomenal og noumenal, tvíhyggja sem ég ætla ekki að eyða púðri í hér), kemur viljinn ekki alltaf heim og saman við skynsemina, vegna þess að aðrar driffjaðrir toga hann í áttir sem skynsemin hefur ekki lagt fyrir hann.

Þegar viljinn ákveður, þrátt fyrir allar efnislegu driffjaðrirnar sem lokka hann til þess að bregða af braut skynseminnar, að breyta í samræmi við hlutlæg lögmál skynseminnar þá er þessi vilji þvingaður til þess að breyta gegn vilja sínum. Vitund þessa vilja um hlutlæg lögmál eða siðareglur, að svo miklu leyti sem hún þvingar viljann til réttrar breytni, er nefnt skynsemisboð — og framsetning þess er skylduboðið. Munurinn á ófullkomnum skynsemisverum eins og okkur mannfólkinu og svo hugsanlega fullkomlega góðum vilja eins og til dæmis Guði er sá að neyða þarf hinar ófullkomnu skynsemisverur til þess að breyta rétt. Þótt hinar fullkomnu skynsemisverur séu alveg jafn bundnar lögmálum skynseminnar er þó ekki hægt að hugsa sér að þær séu þvingaðar eins og hinar ófullkomnu þar eð hlutlægar gerðir þeirra eru ávallt að öllu leyti ákvarðaðar af hinum góða vilja — með öðrum orðum, þá eru þær góður vilji.  

Algilda siðalögmálið — „The Categorical Imperative“

Nú komum við loks að krúnudjásninu sjálfu, eftir mikið raus um aðra þætti verks Kant: siðalögmálið algilda. Hið fræga algilda siðalögmál Kant hljómar einfaldlega svo:

„Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur á sama tíma viljað að verði að algildu lögmáli.“

Fjöllum nú aðeins um þessar setningu og megininnihald hennar: að maður skuli einungis breyta eftir þeirri lífsreglu (sjá skilgreiningu á lífsreglu að ofan) sem maður geti á sama tíma viljað að verði að algildu lögmáli. Spurningin er því sú hvort það sem við ætlum að gera eða það sem við viljum geti samtímis verið eitthvað sem við viljum að gildi um alla aðra og sé bindandi fyrir þá. Þannig að vildi ég stela einhverju þyrfti ég fyrst að spyrja sjálfan mig að því hvort ég vildi sömuleiðis að allir breyttu eins og ég — ég þyrfti að spyrja mig að því hvort ég vildi að allir stælu samkvæmt bindandi lögmáli um siðlega hegðun.

Margir eiga það til að rugla algilda siðalögmálinu saman við gullnu regluna eins og hún birtist í Biblíunni (komdu fram við nágranna þinn eins og þú vilt að nágranni þinn komi fram við þig) og eru sumir einnig gjarnir á að lýsa því einfaldlega sem örlítið flóknari útgáfu af reglunni gullnu, en ég tel að svo sé ekki. Algilda siðalögmálið, eins og Kant reifar til að byrja með, er frumspekilegt og a priori, eða forskilvitlegt. Það er að segja, það á að vera satt fyrir öllum skynsemisverum á sama hátt og rökleiðingin „Allir menn eru dauðlegir — Sókrates er maður — Sókrates er því dauðlegur“ er sönn fyrir öllum skynsemisverum. Lögmálið á því að verka eins og e.k. siðferðilegt rökfall, maskína sem þú matar með siðferðilegri spurningu og færð óyggjandi svar um það hvort það sé rétt eða rangt. Tökum dæmi:

1. Siðferðileg spurning/lífsregla sem ég er óviss um hvort sé siðleg:

„Lífsregla mín er sú að ljúga þegar það hentar mér.“

2. Algilda siðalögmálið:

Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur á sama tíma viljað að verði að algildu lögmáli. — getur þú viljað að „Hver og einn skal ávallt ljúga þegar það hentar þeim,“ verði að algildu og bindandi lögmáli fyrir allar skynsemisverur?

3. Niðurstaða:

„Nei, það get ég ekki. Ef öllum væri gert að ljúga þegar það hentaði þeim gæti ég aldrei treyst neinum. Enginn gæti treyst neinum. Orð yrðu merkingarlaus — þau væru ávallt mögulega ósönn. Það væru gagnslaust að eiga samskipti við annað fólk. Allir myndu hljóta skaða af því og ég þar með talinn. Lífsreglan getur því röklega ekki orðið að lögmáli vegna þess að ef hún yrði lagalega bindandi fyrir allar siðferðisverur myndi hún í reynd ekki henta neinum — hún myndi neita sjálfri sér. Því getur lífsregla mín, að ég ljúgi þegar það hentar mér, ekki verið siðleg.“

Sambærilegar röksemdafærslur um leti, sjálfsmorð, skeytingarleysi og jafnvel illa meðferð dýra er að finna í Grundvellinum, en engin þeirra finnst mér jafn kraftmikil og röksemdafærslan um ómöguleika þess að réttlæta lygar.

Aðrar framsetningar á siðalögmálinu og ríki markmiðanna

Kant setur lögmálið svo síðar fram í tveimur öðrum myndum: 

„Breyttu þannig að þú komir aldrei fram við manneðlið, hvort sem það er í persónu þín sjálfs eða persónu allra annarra, einungis sem tæki heldur ávallt um leið sem markmið.“

og

„Breyttu eins og lífsregla breytni þinnar ætti á sama tíma að verða að algildu náttúrulögmáli með vilja þínum.“

Hver og ein framsetninganna felur svo hinar tvær myndirnar í sér, að mati Kant.

Fyrst færir Kant okkur svo nýja framsetningu á lögmálinu algilda, framsetningu sem hann leiðir af þeirri fyrstu: „Breyttu þannig að þú komir aldrei fram við manneðlið, hvort sem það er í persónu þín sjálfs eða persónu allra annarra, einungis sem tæki heldur ávallt um leið sem markmið.“ Hvernig fær hann þetta út og hvað merkir þetta? Öll breytni, segir Kant, felur í sér tvennt — aðferð eða tæki og markmið. Markmið geta verið einstaklingsbundin og huglæg, eins og markmið mitt um að fá mér ákveðna fæðu í kvöldmat en ekki aðra fæðu, en þau geta, að mati Kant, einnig verið altæk og hlutlæg, eins og markmiðið að framfylgja ávallt skyldu sinni, sem er bindandi fyrir alla að jöfnu óháð tíma, rúmi og stöðu. 

Seinni framsetningin hér að ofan er leidd af þeirri fyrstu, eftir að Kant matar rökfall siðalögmálsins algjöra með setningunni „Lífsregla mín er sú að þegar ég breyti skal ég álíta manneðli annarra og sjálfs míns einungis vera aðferð eða tæki og ekki sem markmið.“ Hann telur þetta ekki geta staðist hið algilda lögmál — því að ef allir gerðu þetta væri í reynd ekki til neitt sem heitir siðfrelsi viljans eða réttur, hvorki minn eigin réttur né annarra. Ef allir framfylgdu bindandi lögmáli um að virða markmið annarra og sjálfs síns að vettugi og koma fram við þau aðeins sem tæki myndi enginn gera neitt yfir höfuð. Enginn hefði vilja til þess að gera neitt, markmið misstu tilvist sína. Það myndi því neita allri breytni algjörlega að gera ofangreinda lífsreglu að altæku siðferðilegu lögmáli, og því er hún ómögulega sönn og algjörlega ósiðleg. Af þessu leiðir að allir viljar eru óhjákvæmilega markmið í sjálfu sér, rétt eins og að af því leiðir að þrælahald er með öllu siðferðilega rangt og vont.

Seinni framsetningin, „Breyttu eins og lífsregla breytni þinnar ætti á sama tíma að verða að algildu náttúrulögmáli með vilja þínum,“ er svo annað mál og viðameira að umfangi. Það sem hann vill sýna fram á með þessari umskiptingu á orðanotkun er að skynsemin sem vilji okkar beygir sig undir þegar hann breytir af skyldu er sá nákvæmlega sami og náttúran sjálf lýtur í lögmálum sínum. Eins og hann segir, þá er algildi lögmálsins sem stjórnar afleiðingum í víðasta skilningi eiginleg náttúra — sem þýðir að skilyrðislausa skylduboðið er á pari við þyngdarlögmálið eða rökrétt framflæði tímans eða geómetrískt eðli rúmsins. 

Það er því náttúrulögmál sem við verðum að hlýða um leið og við skiljum það og formlega þyngd þess eins og hún pressar niður á huga okkar. Hugtakið um hið góða er okkur alveg jafn framandi og pláneturnar sem hringsóla kringum sólina samtímis Jörðinni, og við þurfum að bugta okkur undir það um leið og við gerum okkur grein fyrir því hve veigamikið það er. Það er bókstaflega náttúruafl, segir Kant, og hann telur okkur bera óendanlega (bókstaflega svo, held ég) ábyrgð sem skynsemisverur, meðvitundir sem taka þátt í skilningsheiminum sjálfum. 

Skilyrðislausa skylduboðið er ekki bara eitthvað sem við þurfum að díla við frá degi til dags heldur er það hreint út sagt kosmískt að stærðum og mikilvægi. Það ljáir því ef til vill enn frekari skilning ef við berum þessa alternatívu útleggingu saman við tilvitunina sem Guðmundur Heiðar vísar í í inngangi sínum við verkið um að „tvennt sé það sem hrífi sálina með sífellt nýrri og sívaxandi lotningu,“ og að þetta tvennt sé hvorki meira né minna en „alstirndi himininn yfir [honum] og siðalögmálið í brjósti [hans].“ Kant leggur þetta tvennt ljóslega að jöfnu: innra með okkur býr eitthvað guðdómlegt, eitthvað svo gífurvaxið að mikilvægi að það jafnast á við sindran stjarnanna í allri sinni dýrð.

Síðasta hugtakið sem ég ætla svo að fjalla um að svo stöddu er hið svokallaða ríki markmiðanna. Ríki markmiðanna, skilji ég það rétt, er hýpóþetískt samfélag skynsamra manna, þar sem hver og einn hegðar sér í samræmi við skilyrðislausa skylduboðið: enginn hegðar sér á þann veg að breytni þeirra gæti ekki sömuleiðis orðið að algildu lögmáli, enginn kemur fram við annan án þess að taka þeim sem markmiði í sjálfu sér en ekki aðeins sem tæki, og hver álítur breytni sína vera löggjafarvald í sjálfu sér, leggjandi algild lögmál fyrir alla þegna ríkis markmiðanna. Þetta ríki markmiðanna er í raun allegóría eða myndlíking fyrir eðli siðferðisins: það lýsir sambandi okkar allra að því leyti sem við erum siðferðisverur og byggjum þennan sameiginlega heim.

Hver sá sem er meðlimur í ríki markmiðanna er um leið yfirmaður þess að svo miklu leyti sem þau hafa þetta umrædda löggjafarvald, en á sama tíma eru allir aðrir meðlimir ríkisins einnig löggjafar fyrir það, verandi skynsemisverur, og því heyrir hver og einn tæknilega séð undir alla hina löggjafana samstundis. Punkturinn er því sá að maður er í stöðugu spennuþrungnu siðferðilegu sambandi við allar aðrar skynsemisverur, skapandi rökræn lögmál um hegðun okkar út frá sameiginlegum þenkjandi grunni skynseminnar.

Ég ætla að segja þetta gott í bili enda er ég kominn yfir 5000 orða markið. Auðvitað er ég ekki að snerta á öllu sem Kant talar um í verkinu né heldur hef ég sagt margt um mínar eigin skoðanir. Það eina sem þið hafið lesið hér eru mínar eigin túlkanir á textanum og skilningur minn á efnistaki hans. Ef þið hafið einhverjar spurningar eða finnst einhverju ábótavant skuluð þið ekki hika við að senda mér línu um það. Þið mættuð jafnvel líta svo á að ykkur beri skilyrðislaus skylda til þess að gera það. Ekki vilduð þið lifa í heimi þar sem það væri algilt lögmál að enginn leiðrétti rangfærslur, er það nokkuð? Takk fyrir að lesa, eins og alltaf, og þar til næst — í Hegel-bloggi V mun ég taka gagnrýni Hegels á siðfræði Kant rækilega fyrir. Verið spennt!


Málverkið í haus heitir Chavade og er eftir Richard Pousette-Dart. 1951.

Fátækt túlkunarinnar: Hegel í skrifum Hannesar Hólmsteins

Fátækt túlkunarinnar: Hegel í skrifum Hannesar Hólmsteins

Tölvuleikir, mannshugur og skynsemi​​​​​​​

Tölvuleikir, mannshugur og skynsemi​​​​​​​