Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Gettier-vandamál og sönn, rökstudd skoðun

Gettier-vandamál og sönn, rökstudd skoðun

Hvernig skilgreinum við þekkingu? Þetta er mikilvægt vandamál innan undirgreinar heimspekinnar sem kennd er við þekkingarfræði. Þekkingarfræðingar kanna undirstöður og forsendur þekkingar okkar, og reyna að komast að því hvað það er að vita eitthvað. Hvernig, til að mynda, get ég rökstutt staðhæfinguna „Ég veit að jörðin er sporvölulaga“? Ég gæti sagt að ég hefði vitneskjuna frá tiltölulega öruggu kennivaldi vísindanna, eða ég gæti sagt að ég hefði framkvæmt tilraun sem sýndi fram á að jörðin sé sporöskjulaga, ég gæti sagt að ég hefði horft á myndband af jörðinni úr Alþjóðlegu geimstöðinni — og svo framvegis. Ég byggi semsagt þekkingu mína á einhverjum tilteknum forsendum, þannig að það má skilja þekkingu sem ályktun dregna af ákveðnum forsendum. Sé þekking skilin á þennan hátt má hugsa sér að hægt sé að skilgreina hana kyrfilega, til þess að greina þekkingu frá einfaldri trú. Þetta hafa margir reynt að gera — og lengi var til tiltölulega örugg formúla fyrir því hvað þekking væri. Hún var einhvernveginn á þessa vegu:

𝛼

S veit P ef og aðeins ef:

  1. P er satt

  2. S trúir því að P sé satt

  3. S hefur grundvöll fyrir því að trúa því að P sé satt

Þar sem „S“ táknar tiltekna persónu eða þekkjanda og „P“ táknar staðhæfingu eða setningu sem lýsir einhverju þekkingarviðfangi. Dæmi um slíka formúlu gæti verið: Karl veit að jörðin er sporöskjulaga ef og aðeins ef 1) jörðin er sporöskjulaga, 2) Karl trúir því að jörðin sé sporöskjulaga og 3) Karl hefur grundvöll fyrir því að trúa því að jörðin sé sporöskjulaga.

Athugið að þessi setning eða þessar forsendur lýsa í rauninni engu sérstöku um sanngildi setningarinnar „jörðin er sporöskjulaga“ — heldur snúa þessar forsendur einvörðungu að því hvort hægt sé að staðhæfa um þekkingarfræðilegt ástand viðfangsins „Karl,“: veit Karl að jörðin sé sporöskjulaga eða heldur hann það bara?, trúir hann því bara?, o.s.frv. Sanngildi setningarinnar spilar þá aðeins inn í að því leytinu til sem það hefur áhrif á vitneskju þekkjandans, en er ekki problematískt í sjálfu sér — það er gefið sem annaðhvort satt eða ósatt, sem hefur svo tiltekin áhrif á „þekkingarfallið,“ þ.e. vensl þekkjandans við viðfang þekkingarinnar.

Spurningin er þá hvort þessar forsendur dugi okkur til þess að skilgreina hvað þekking er og hvað ekki — getur það staðist? Maður hugsar sér nú að þessar forsendur dugi okkur ágætlega frá degi til dags — við krefjumst þess flest að til þess að einhver geti talist vita eitthvað þá þurfi þau að búa yfir trú um sanngildi tiltekins viðfangs sem samræmist raunsanngildi viðfangsins, og í ofanálag þurfa þau að geta sýnt fram á hvernig þau hafa komist að þessari trú. Til þess að hægt sé að segja „Kalli veit að það er þriðjudagur“ myndum við alltaf krefjast þess að Kalli haldi að það sé þriðjudagur, að það sé þriðjudagur, og að hann viti þetta vegna þess að dagurinn á undan var mánudagur og þriðjudagar koma alltaf á eftir mánudögum. Þetta er frekar traust — svona við fyrstu sýn, að minnsta kosti.

Reynum nú að snúa örlítið upp á þetta tiltekna dæmi um þriðjudaginn. Hugsum okkur að hann Kalli hafi hugsað sér um eftirmiðdegi mánudags: „Í dag er mánudagur. Vikuskipanin er slík að á eftir mánudögum verða alltaf þriðjudagar. Því verður þriðjudagur þegar ég vakna á morgun úthvíldur.“ Segjum svo, og hér vandast málin, að Kalli fari að sofa um kvöldið án þess að lesa fréttirnar: það vill svo til að ríkisstjórnin hafði samþykkt lagabreytingu samdægurs sem lögfesti nýja vikuskipan. Í nýrri vikuskipan er miðvikudagur á undan þriðjudegi, og mánudagur á eftir þriðjudegi — þannig að mánudagur og miðvikudagur skipta um stað í röðun vikunnar. Þetta gerði það að verkum að í reynd var miðvikudagur þegar Kalli fór að sofa, en ekki mánudagur. Nú vaknar Kalli daginn eftir og hugsar „Í gær var mánudagur. Á eftir mánudögum koma þriðjudagar. Því er þriðjudagur í dag.“ Þá kemur stóra spurningin: veit Kalli að það sé þriðjudagur? Reynum að leggja mat á spurninguna út frá forsendunum sem við höfum þegar tekið fyrir.

Kalli veit að það er þriðjudagur ef og aðeins ef:

  1. Það er þriðjudagur

  2. Kalli trúir því að það sé þriðjudagur

  3. Kalli hefur grundvöll fyrir því að trúa því að það sé þriðjudagur

Kalli uppfyllir öll þessi skilyrði — en þrátt fyrir það er orðið vafasamt að hann viti að það sé þriðjudagur. Það sem skeði milli þess sem hann grundvallaði átrúnað sinn (um að þriðjudagur komi á eftir mánudögum) hefur gert grundvöllinn rangan — lagabreytingin gerði eina forsendu röksemdafærslu Kalla ósanna. Þrátt fyrir það er Kalli heppinn; þriðjudagur var dagurinn sem kom á eftir deginum sem var, röðinni var ekki breytt þannig að það hefði áhrif á niðurstöðu röksemdafærslunnar. Í stuttu máli breyttust aðstæður þannig að grundvöllurinn sem þá var gildur varð ógildur, en án þess þó að breyta niðurstöðunni sem hlaust af grundvellinum.

Annað sambærilegt dæmi gæti verið á þá leið að Kalli sé á ferð um sveitahérað. Hann horfir út um gluggana og sér hlöðu skammt frá þjóðveginum — og hann hugsar með sér „Þetta lítur út eins og hlaða, ég er í sveitinni. Það er hlaða þarna.“ Það sem Kalli veit ekki er að sveitungar hafa reist pappahlöður hér og þar, falskar hlöður, til þess að líta út fyrir að vera ríkari en ella. Segjum þó að Kalli sé ekki að horfa á pappahlöðu heldur raunverulega, ósvikna hlöðu — veit hann að hann sé að horfa á hlöðu? Gæti hann ekki allt eins verið að horfa á pappahlöðu og haldið að hún væri ósvikin hlaða? Rétt eins og í dæminu um þriðjudaginn uppfyllir hann allar klassískar kröfur þekkingarskilgreiningarinnar — Kalli er að horfa á hlöðu, hann trúir því að þetta sé hlaða, og hann hefur gildan grundvöll fyrir því að trúa því að þetta sé í reynd hlaða — en manni virðist samt sem þetta sé ekki raunveruleg þekking.

Málið er að í báðum dæmunum er eitthvað óheppilegt sem setur skugga á grundvöll þekkingarinnar (lagabreyting, staðreyndin um falskar hlöður), en þrátt fyrir óhappið er niðurstaða grundvallarins sönn fyrir einskæra heppni. Þekkjandinn hefur því rétt fyrir sér um stöðu mála, en aðeins í krafti heppilegrar tilviljunar — en ekki í krafti grundvallarins sem hann þykist hafa fyrir þekkingunni. Bæði dæmin sem ég hef tekið hér — dæmin um þriðjudaginn og hlöðurnar — eru dæmi um svokölluð Gettier-vandamál. Þau draga nafn sitt af heimspekingnum sem fyrst benti á þau, Edmund Gettier, sem kom auga á þau fyrst árið 1963. Þá skrifaði hann stutta ritgerð sem heitir „Is Justified True Belief Knowledge?“ — og færir rök fyrir því að (𝛼)-skilgreiningin á þekkingu (hér að ofan) sé ekki fullnægjandi sem skilgreining á þekkingu. Rökin eru mjög sterk og sýna að mínu mati fremur kyrfilega fram á að gloppur séu í almennu skilgreiningunni — en mér finnst aftur á móti líka mjög auðvelt að efast um það hversu tryggar setningarnar sem Gettier leiðir út í greininni séu raunverulega.

Tökum dæmið hans um Ford-bílinn. Smith hefur góð rök fyrir því að Jones eigi Ford-bifreið. Af þessu leiðir Smith þrjár rökgildar yrðingar:

1. Annaðhvort á Jones Ford-bifreið eða Brown er í Boston.

2. Annaðhvort á Jones Ford-bifreið eða Brown er í Barcelona.

3. Annaðhvort á Jones Ford-bifreið eða Brown er í Brest-Litovsk.

Þetta eru allt gildar setningar vegna þess að við sanna gefna yrðingu x má alltaf skeyta tenginguna eða og svo einhverja tiltekna breytu y. Þetta er einfaldlega gild ályktunarregla í formlegri rökfræði. Hún stenst skoðun vegna þess að þegar þú veist að eitthvað er satt er alltaf jafn satt að skeyta einhverri þvælu við það með því að segja eða — sanngildi setningarinnar veltur á eða-tenginu og það er tryggt af sanngildi fyrsta liðarins.

Gettier-vandamálið sprettur svo upp þegar við komumst að því að Jones eigi alls ekki Ford-bifreið en fyrir tilviljun er Brown akkúrat í Brest-Litovsk. Yrðing þrjú, sem smíðuð var á grundvelli átrúnaðar Smith um bifreiðaeign Jones, er eftir allt saman sönn í krafti staðsetningar Brown. Við myndum þó ekki segja að Smith vissi rökyrðingu þrjú.

Mér finnst þetta þó dálítið vandræðalegt, allt saman, vegna þess að ég myndi sjálfur aldrei leiða rökyrðingarnar þrjár um Brown út frá trú minni um bifreiðaeign Jones. Málið er að þetta er allt gilt rökfræðilega en þetta endurspeglar alls ekki almenna hugmynd okkar um þekkingu. Raunin er sú að í dæminu fer Smith ekki eftir neinum viðurkenndum leiðum öðrum en ályktunarreglum formlegrar rökfræði til þess að leiða eða-yrðingarnar þrjár — og enginn tæki því alvarlega að Smith gæti réttlætt þær sem gildar afleiðslur af upprunalegu staðhæfingunni um Jones. Þegar við tökum þessar óréttmætu eða-leiðingar úr jöfnunni verður dæmið miklu einfaldara: Smith hefur bara rangt fyrir sér um Jones. Þar með er það útrætt.

Við losnum þó ekki svo gjarnt við Gettier-vandamálin — það má smíða þau úr mikið raunhæfari dæmum en þeim sem Gettier birti í fyrstu. Fræg grein eftir Lindu Zagzebski sýnir hvernig unnt er að „Gettíera“ allan fjandann. Þrátt fyrir það er þó alveg víst að deilan um það hvort það sem við teljum okkur vita í hversdagslegu samhengi sé stórt-þorn Þekking eður ei ætti ekki að skipta okkur öllu máli. Ef þið eruð venjulegt fólk eins og ég sjáið þið eflaust strax að þessi skilgreiningarvandi hefur engin áhrif á hversdagslegt líf okkar — það skiptir okkir í raun engu máli hvort við búum yfir þessari þekkingarvissu sem þekkingarfræðin leitast eftir að fanga á fræðilegu nótunum. Þrátt fyrir að þekkingarfræðin sé á vissan hátt apraxísk getur þó verið virkilega gaman og gefandi að gefa henni dálítinn gaum — og hið sama á auðvitað við um frumspeki.

Að endurtaka og að endurtaka

Að endurtaka og að endurtaka

Um menningarmarxisma og önnur gjálfuryrði

Um menningarmarxisma og önnur gjálfuryrði