Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Gagnrýnin hugsun og hið líkamlega

Gagnrýnin hugsun og hið líkamlega

Þessi pistill birtist fyrst í útvarpsþættinum Lestin þann 27. júní 2018. Hægt er að hlusta á hljóðupptöku af upplestri höfundar hér að neðan. Málverkið í haus heitir Italian Landscape eftir George Hemming Mason (1858).


Líkaminn sem umlykur okkur er furðuverk. Hann krefst stöðugs viðhalds og umhugsunar og í ofanálag virðist hann oft á tíðum alls ekki vera neitt einkamál. Annað fólk virðist hafa endalausar skoðanir á því hvernig líkami okkar ber fyrir, hvernig líkamleiki okkar birtist þeim — og okkur finnst við oft knúin til þess að hlusta á þetta fólk, bæði sökum félagsþrýstings en einnig vegna þess að þetta fólk þekkir líkama einfaldlega betur en við sjálf — og ég á þá við fólk eins og lækna og aðra sem eru atvinnufólk í heilbrigðisgeiranum. Að þessum staðreyndum gefnum stendur hvert og eitt okkar frammi fyrir persónulegu vandamáli: hvernig viðhorf gagnvart líkamanum ætti ég að móta mér, og hvers vegna?

Umtalsverðar sviptingar hafa átt sér stað í meðvitund mannsins um líkamann og heilsuna á síðustu árum — eins og búast mætti við, svosem. Þessar sviptingar eru margbentar og flóknar, og okkur mun augljóslega ekki gefast tími hér til þess að kanna þær allar til hlítar. Þrátt fyrir það tel ég að mögulegt sé að marka út tvær mismunandi og mis-algengar afstöður til hins líkamlega, eða þess sem ég hef kallað líkamleikans. Í pistli dagsins hyggst ég gera tilraun til þess að afmarka þessar tvær mismunandi afstöður, gagnrýna þær, og mögulega samþætta þær til þess að stofna til heilbrigðara, gagnrýnara og sjálfbærara viðhorfs gagnvart líkamleikanum.

Til að byrja með vil ég snerta stuttlega á því hvernig félagsleg viðhorf annarra eiga það til að verða persónuleg viðhorf okkar. Þetta virðist mér vera tiltölulega óumdeilanleg staðreynd — við eru  gjörn á það að herma eftir öðru fólki, að því leytinu til sem við erum viðkvæmar félagsverur þjáðar af djúpum og óslökkvandi viðurkenningarþorsta. Ekki auðveldar það heldur hinu einstaka að brjótast fram hvernig við eigum það einnig til að þrýsta á annað fólk og nánast neyða það til þess að gefa sig undir hvað það sem er samfélagslega viðtekið að hverju sinni. Þetta á við um hið líkamlega.

Til er einhver óljós og gróf en mjög raunveruleg samfélagsleg hugsýn um hið líkamlega; fyrirmyndarlíkaminn sem er hið góða, hið rétta og hið sanna hvað viðkemur hinu líkamlega. Óþarft er að lýsa þessari hugmynd um líkama í smáatriðum, helst til vegna þess að það er ómögulegt, fyrirmyndarlíkaminn verandi vofukenndur og óáþreifanlegur. Nákvæmari ákvörðun hugtaksins í raunheimsdæmum myndi í reynd gera það að verkum að við værum alls ekki að tala um fyrirmyndarlíkamann lengur. Í öllum föllum treysti ég því að þið hafið einhverja óljósa hugmynd um hvað ég er að tala, kæru hlustendur. Fyrirmyndarlíkaminn hefur sterka viðurvist í menningunni, sérstaklega hinni myndrænu — hann hefur aðdráttarafl fyrir mörgu fólki fyrir sakir hugmynda um heilsu og fegurð — og flestum virðist ákjósanlegra að búa yfir líkama í mynd sem er áþekk fyrirmyndarlíkamanum en ella.

Viðhorfin okkar tvö sem við ætlum að hugsa um og skilgreina nánar í dag eru svo einnig skilgreind í samhengi við þennan fyrirmyndarlíkama. Í fyrsta lagi getum við talað um viðhorf sem samþykkir raunveruleika og aðdráttarafl fyrirmyndarlíkamans, og í öðru lagi getum við talað um viðhorf sem hafnar fyrirmyndarlíkamanum á alla vegu. Fyrra viðhorfið einkennir fleiri en seinna viðhorfið, og seinna viðhorfið er nýtilkomið í samanburði við hið fyrra. Seinna viðhorfið rís að einhverju leyti upp úr hinu fyrra, sem niðurstaða gagnrýninnar afstöðu og rannsóknar á þessari hugmynd um fyrirmyndarlíkama, og skilgreinist þannig að einhverju leyti af því. Köllum fyrra viðhorfið, sem tekur sér jákvæða afstöðu gagnvart hugmyndinni um fyrirmyndarlíkama, fyrirmyndarviðhorfið. Köllum seinna viðhorfið, sem tekur sér neikvæða afstöðu gagnvart hugmyndinni um fyrirmyndarlíkama, líkamsvirðingarviðhorfið. Gerum þá tilraun til þess að skilja þessi viðhorf aðeins nánar.

Fyrirmyndarviðhorfið grundvallast á því að til sé hugmynd um æskilega fullkomnun líkamleikans og að hægt sé að þekkja þessa hugmynd og raungera hana með meðvituðum og varfærnum aðgerðum. Þetta viðhorf gerir sér ekki endilega neinar hugmyndir um það hvaðan nákvæmlega þessi fullkomnunarhugmynd kemur og á því auðvelt með að rugla saman uppruna hugmynda sinna — þótt hún sé í hugmyndinni fullfær um það. Það sem fyrirmyndarviðhorfið á það til að skapa er hins vegar hugmynd um það, að vegna þess að til sé fyrirmyndarlíkami, þá sé líkamleiki þess sem eignar sér viðhorfið ófullkominn. Hið líkamlega tekur þannig á sig undarlegan blæ; um leið og við samþykkjum óljósu og óskilgreinanlegu fyrirmyndina bliknar líkaminn sem við eigum núna í samanburði. Þannig getur hugmyndin um fullkomnun orðið eitthvað sem meðvitundin gerir tilraun til þess að bókstaflega neyða á líkama sinn. Líkaminn sem við höfum verður ljótur og óheilbrigður og óæskilegur fyrir meðvitundinni. Þetta getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér á við sjálfsfyrirlitningu og óheilbrigt samband við fæðu og líkamsrækt.

Líkamsvirðingarviðhorfið tekur sér fyrst og fremst afstöðu gegn þeirri hugmynd að til sé æskileg fullkomnun líkamleikans og að hægt sé að þekkja og ná þessari fullkomnun með vissunni sem fyrirmyndarviðhorfið virðist oft tileinka sér. Það leggur fremur áherslu á það að losna undan hlekkjunum sem fyrirmyndin á til með að binda meðvitundir okkar með — hlekkjum á við einangrandi og útilokandi hugmyndum um það hvað heilsa er og um það hvernig rétt eða rangt sé að líta út. Líkamsvirðingarviðhorfið beinir athygli einstaklingsins að sjálfsveru einstaklingsins; þeirri staðreynd að fyrirmyndin sé of óljós til þess að geta yfir höfuð raungerst og að í stað þess að elta vofu óræðrar fyrirmyndar ætti maður fremur að einbeita sér að því að samþykkja líkamann sinn með öllum hans kostum og göllum. Líkamsvirðingarviðhorfið er þannig hreyfing í átt burt frá almennum, viðteknum hugmyndum um heilsu og fegurð, og sem slíkt getur það átt það til að gera lítinn greinarmun á því hvaðan hugmyndirnar um heilsu og fegurð koma. Þannig getur líkamsvirðingarviðhorfið fallið í þá gryfju að hafna hinu heilsusamlega fyrir það eitt að það sé talið heilsusamlegt af öðrum.

Þessar tvær lýsingar mínar eru ekki fullkomnar, né heldur lýsa þær neinum tilteknum einstaklingum, heldur viðhorfunum sem slíkum og hugmyndunum sem felast í þeim. Ekki allir sem aðhyllast líkamsvirðingarviðhorfið hafna viðteknum hugmyndum um hið heilsusamlega einfaldlega vegna þess að þær eru viðteknar, og ekki allir þeir sem aðhyllast fyrirmyndarviðhorfið mynda sér óheilbrigðar hugmyndir og tilfinningar vegna þess að þeim finnst líkamleiki þeirra skorta eitthvað eða vera ófullkominn. Hins vegar tel ég réttmætt að halda því fram að þessi viðhorf geti leitt til þessara báginda á báða bóga, þrátt fyrir að þau geri það ekki í öllum tilfellum. Það er vegna þessa sem ég tel æskilegt að reyna að leggja drög að nýrri hugarsmíð, nýju viðhorfi, sem samþykkir sumt og hafnar öðru úr báðum viðhorfunum, samþættandi þau í nýtt og betra viðhorf.

Nýja viðhorfið sem ég vil reyna að negla saman hérna í mjög grófum dráttum vil ég kenna við gagnrýnisviðhorfið. Það hefur það fram yfir hin tvö viðhorfin að það hefur yfirsýn yfir þau bæði og getur þannig metið kosti og galla þeirra, auk þess sem það er endurkvæmt og meðvitað ófullkomið að því leytinu sem það er viðhorf. Gagnrýnisviðhorfið tekur sér fyrst og fremst gagnrýna afstöðu til þess hvaðan hugmyndir um líkamleika koma, að innan jafnt sem að utan. Það samanstendur af einni viðstöðulausri tilraun til þess að komast að því hvers vegna okkur finnst einhver ein hugmynd um hið líkamlega ákjósanlegri en önnur — standandi í eins írónískri fjarlægð frá hugmyndunum sjálfum og mögulegt er.

Gagnrýnisviðhorfið spyr sig spurninga eins og: hvers vegna finnst okkur þessi hugmynd um líkamleikann ákjósanlegri en önnur? Hvers vegna ætti ég að sækjast eftir því að móta minn líkama í takt við hana? Hvaðan kemur tilfinningin innra með mér um að líkami minn sé ófullkominn vegna þess eins að hann stenst ekki kröfur þessarar fyrirmyndarhugmyndar? Enn fremur gerir gagnrýnisviðhorfið tilraun til þess að greina milli þeirra hugmynda um líkamleika sem eiga sér þekkingarfræðilega traustan grundvöll og þeirra sem eru múgæsingskenndur uppspuni eða sjónhverfing.

Jafnframt byggist gagnrýnisviðhorfið á sambærilegri hugmynd og líkamsvirðingarviðhorfið að því leyti sem það leggur áherslu á virðingu við líkamann, með þeim mikilvæga greinarmun að það tekur tillit til þess að ákveðnar hugmyndir um líkamleikann séu nauðsynlegar til þess að hægt sé að bera virðingu fyrir líkamanum að því leyti sem hann er líkami, þ.e. að því leyti sem hann krefst viðhalds og umhyggju sem efnisveruleiki.

Það að bera virðingu fyrir líkamanum er nefnilega ekki að sjá og samþykkja hann aðeins fyrir það sem hann er, heldur það sem hann gæti verið. Beri maður virðingu fyrir líkama sínum ætti manni jú að finnast það ákjósanlegast að hann sé sem hraustastur og í sem allra bestu jafnvægi, án þess þó auðvitað að manni þurfi að fara að líða illa yfir því að hann sé ekki í fullkomnu ásigkomulagi miðað við einhverja þokukennda hugmynd um fyrirmyndarlíkama. Virðing fyrir líkamanum felst einnig í því að maður byggi upp jákvætt og skapandi samband við líkamann sinn, finni sig í honum, svo að segja — komist til fullrar meðvitundar um hann.

Nú höfum við velt fyrir okkur þessum þremur mismunandi viðhorfum til hins líkamlega, eða líkamleikans — en erum við einhverju nær? Ljóst er að við höfum aðeins rétt byrjað að snerta yfirborð þessarar víðfeðmu umræðu. Ég tek augljóslega ekki tillit til ýmissa þátta sökum lengdartakmarkana, þátta á borð við átraskanir og önnur fyrirbæri sem móta viðhorf einstaklingsins til hins líkamlega á djúpstæðan máta sem ekki verður leyst með því einu að skipta um skoðun. Ég þykist ekki geta tekið þessa þætti auðveldlega inn í reikninginn hvað viðkemur gagnrýna viðhorfinu sem ég mæli með í þessum pistli og hef reynt að móta sjálfum mér persónulega, og því játa ég fúslega að ef til vill sé gagnrýnisviðhorfið ófullkomið eða jafnvel gallað. Þrátt fyrir það tel ég kosti þess marga — fyrst og fremst vegna þess að gagnrýnisviðhorfið er viðleitni til þess að reyna að fullkomna sig í samvinnu við líkamann, ekki í andstöðu við hann.

Hugsum vel um líkama okkar og verum gagnrýnin á hugmyndir okkar um hann — hvaðan sem þær kunna að koma. Það er, bókstaflega, dauðans alvara.

Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar

Vinnuvirðiskenningin í ljósi hughyggjunnar

Stutt orðræða um persónufornöfn

Stutt orðræða um persónufornöfn