Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Innantómar eilífðir

Innantómar eilífðir

Akkilles og skjaldbakan taka á rás niður brautina og týnast í órafjarlægðum smæðarinnar. Maður sér þá fyrir sér svífandi gegnum loftið í miðjum skrefum, hverfandi í óendanlegar femtó-stærðir neikvæðs veldisvaxtar til þess að geta ferðast vegalengdirnar sem Zenó lýsir. Tíminn virðist lengjast þegar rúmið skreppur og hótar því að Akkilles fái aldrei að upplifa hlaupavímuna við endalok hlaupabrautarinnar. Endalaust vaxandi tímarammi, endalaust smækkandi vegalengd — eða er það öfugt? 

Við skulum vera óhrædd við að vera sammála Zenóni, óhrædd við að lenda í sömu klemmu og kapphlaupararnir kljást nú við. Gefum okkur á hans band og sammælumst honum um að hreyfing sé ómöguleg, að tíminn og rúmið séu í stöðugri mótsagnarspennu. Gefum okkur að það taki endalausan tíma að hreyfast svo lítið sem örstutta vegalengd, gefum okkur að aðstæður Akkillesar séu eilífðin fljótandi í augnablikinu. Hvað hugsar sonur Þetisar meðan hann kynnist óendanleikanum?

Ef til vill hugsar hann um það sem hann hugsar um þegar hann hugsar um hlaup. Ef til vill bölvar hann skjaldbökukónanum fyrir að hafa ginnt sig upp í þessa ómögulegu keppni. Ef til vill er hann ófær um hugsun, rafboðin milli taugunga heilans stöðvuð í stað, þurfandi alltaf að fara helming vegalengda sinna til þess að komast á áfangastað. Ef til vill upplifir hann torgæta ataraxíu hellenistanna. Ef til vill er hann ekki að gera neitt annað en að bíða eftir því að klára kapphlaupið.

Kannski hefur Zenóni dottið dæmisagan um kapphlaupið ómögulega í hug þegar hann beið eftir einhverju — eins og til dæmis þegar hann beið lausnar eftir að hafa verið klófestur og pyntur af Nearchusi, einræðisherra Eleu, eftir að upp komst um að hann ásamt öðrum hafði lagt á ráðin um að steypa harðstjóranum af stóli. Þar eð hann var að líkindum myrtur að lokum er sennilegra að honum hafi dottið þversögnin í hug meðan hann beið eftir vini sínum í agórunni í það sem honum fannst vera heil eilífð.

Þegar við bíðum hverfa áskoranir efnisheimsins okkur sjónum og það eina sem stendur í vegi fyrir okkur er tíminn sjálfur. Hann hindrar okkur för, og sama hvað við engjumst og berjumst við það hversu löturhægt hann tifar hjá verðum við alltaf undir hann gefin — þegar við fæðumst, þegar við lifum, þegar við öndumst. Hver einasta sekúnda er bið, hvert einasta lífsleið er bið — bið eftir biðinni sjálfri. Það er ekki þar með sagt að lífið sé glatað eða merkingarlaust. Biðin er nefnilega ekki alslæm.

Maður þarf til að mynda ekki að bíða einn. Maður getur beðið með einhverjum öðrum, eins og Vladimir og Estragon eftir Godot, Loki og Sigyn eftir Ragnarökum eða Marx og Engels eftir byltingu öreiganna. Meðan maður bíður getur maður dundað sér við hitt og þetta; lestur, spjall, smíðar, ferðalög. Því boða ég nýtt hugarfar: njótum biðarinnar. Njótum umferðarteppa, biðstofa, niðurhalstíma, kapphlaupa við skjaldbökur. Staðreyndin er nefnilega sú að sama hve við bíðum lengi, þá bíður okkar alltaf meiri bið.

Málverkið er eftir Jóhannes Kjarval.

Nick Land, nýafturhald og heimspekilegur grundvöllur nettrölla

Nick Land, nýafturhald og heimspekilegur grundvöllur nettrölla

Mikillæti, ofurmenni og  heimssagan sjálf

Mikillæti, ofurmenni og heimssagan sjálf