Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Værð

Værð

Þegar það er eins og allt súrefnið hafi brunnið upp úr andrúmsloftinu og þyngdaraflið orðið tvöfalt þá langar mig stundum að strjúka. Flýja bara, skilja allt eftir og finna mér friðsælan stað þar sem ég get verið ég sjálfur.

Sérstaklega hugsa ég til suðvestanverðs Tyrklands, — lítils þorps norðan við Izmir, hvar ég sat á bekk heilt eftirmiðdegi með gamalli konu sem talaði ekki stakt orð í ensku. Við bruddum sólblómafræ sem hún hafði meðferðis og hlustuðum á bænakallið úr mosku sem stóð í nánd við okkur. Ég horfði á menn ganga inn í bænahúsið, skilja skóna eftir fyrir utan og fara í inniskó sem biðu fyrir utan. Gamla nýja vinkona mín brosti tannlausu brosi og bauð mér fleiri fræ. Bænakallið, sólin, vináttan sem allir höfðu sýnt mér — mér leið unaðslega.

Sérstaklega hugsa ég til lestarstöðvar í japönskum smábæ í Hyogo-héraði. Það var enginn á ferð og sólin var að setjast bak við fjöllin. Ég hafði verið sá eini sem fór út á brautarpallinum. Ég settist niður og horfði á litla mosagróna vatnsmyllu snúast hring eftir hring í nánast algerri þögn. Ég hafði verið að lesa Gogol í lestinni en það var eitthvað við friðinn fyrir utan lestarstöðina sem heillaði mig svo ég stakk bókinni niður í tösku. Það eina sem heyrist er vatnsniðurinn og vindgolan. Það leið skömm stund í þögninni þar til japönsk vinkona mín sótti mig — en þessi skamma stund leið hægt, eins og allur heimurinn væri sokkinn í harðnandi raf eða eins og við værum að nálgast alkul og það hratt, eða hægt, eða hver er munurinn? 

Sérstaklega hugsa ég til lítils, ómannaða ávaxtastands í úthverfum Waialua á norðanverðri Oahu eyju í Hawaii. Ferskum mangóum hafði verið hrúgað í körfu og þau skilin eftir í dálitlum skugga við hliðina á litlu skilti og krukku sem gegndi hlutverki verslunarkassa. Ég hafði gengið meira en tuttugu kílómetra síðustu tímana og var glorhungraður. Ég skildi eftir fimm dollara eins og skiltið boðaði mér að gera og greip með mér tvo ávexti. Meðan ég gekk áleiðis og reyndi að húkka far reif ég þá upp með fingrunum og borðaði þá. Þeir voru bestu ávextir sem ég hef smakkað. Svo fann ég mér leið niður að hvítri strönd, lagði bakpokann undir hnakkann og lagði mig. Öldurnar og hafgolan, sjávarilmurinn, — allt umhverfið greip mig og dró mig niður í draumaheim.

Þegar allt bjátar á finnst mér ég vera þakklátur sjálfum mér fyrir minningarnar sem ég á alltaf að. Þær veita mér friðsæld og innri ró þegar fólkið í kringum mig hefur allt á hornum sér eða þegar kvíðinn er við það að taka öll völd í hjarta mér. Sérstaklega hugsa ég þá til vatnsmyllunnar, bænakallsins, strandarinnar.

Lýðræði og viðurkenning

Lýðræði og viðurkenning

Skynfæraspjöll, sannleikur og samfélag

Skynfæraspjöll, sannleikur og samfélag